SAGA 1FM 05 - Saga, fornöld og miðöld

Grunnáfangi

Sjá nánar um hæfniviðmið í skólanámskrá VÍ. Námsmat kann að vera öðruvísi í fjarnámi og dagskóla.

Áfangalýsing

Farið er yfir helstu þætti í Íslands- og mannkynssögu frá árdögum til um 1750. Upphaf mannsins og siðmenningar, stórveldi í Miðausturlöndum, menningarafrek Grikkja og stórveldi Rómverja mynda uppistöðuna í fyrsta þriðjungi áfangans. Annar þriðjungur fjallar um miðaldir í Evrópu, landnám Íslands og myndun og þróun samfélags þar. Að lokum er fjallað um endurreisn og siðaskipti, landafundi, verslunareinokun og einveldi á Íslandi

Markmið

Að nemendur öðlist

  • skilning á mikilvægum þáttum í sögu mannsins frá örófi alda fram á átjándu öld, þar með menningarríkjum fornaldar, samfélagsháttum miðalda og þjóðfélagsþróun á fyrri hluta nýaldar.
  • innsýn í heim fornaldar og miðalda, stjórnarhætti, verkmenningu, heimspeki og trúarbrögð, þannig að samhengi og samfella sögunnar sé þeim ljós. Nemendur skilji áhrif ýmissa þátta í menningu fornaldar á vestræn þjóðfélög nútímans, þar á meðal sitt eigið.
  • innsýn í sögu lands og þjóðar frá landnámi til okkar daga.
  • skilning á atvinnuháttum, stjórnarfari,  menningu, hugarfari, trúarbrögðum og siðum og sambandi þeirra í aldanna rás. Ennfremur að þeim verði ljós tengsl Íslendinga við aðrar þjóðir, sambúð lands og þjóðar, og áhrif hennar á samfélagshætti, stéttaskiptingu, verkmenningu og hugmyndir.
  • þjálfun í að túlka atburði og þróun á mismunandi tímabilum og læri að nýta sér texta, kort, myndir og vefsíður sem geyma sögulega þekkingu.
  • tilfinningu fyrir daglegu lífi og hugarheimi á mismunandi tímum og geti túlkað hugmyndir og menningarþætti í samhengi við samfélög fyrri alda

Námsgögn

  • Fornir tímar. Spor mannsins frá Laetoli til Reykjavíkur 4000.000 f.Kr. til 1800 e.Kr.  Höfundur er Gunnar Karlsson.