Stefna skólans með fjarkennslu

Verzlunarskóli Íslands er framsækinn skóli þegar kemur að námsframboði. Með því að bjóða upp á öflugt fjarnám kemur Verzlunarskólinn til móts við stóran hóp nemenda sem þarf ákveðinn sveigjanleika í sínu námi. Hvort sem nemendur þurfa að bæta við sig einstaka áföngum til þess að ljúka stúdentsprófi eða vegna frekara náms. Stefna skólans er að bjóða upp á fjölbreytt úrval af áföngum sem einnig nýtast þeim sem vilja efla sig eða bæta við þekkingu sína til þess að styrkja sig á vinnumarkaði. Fjarnám skólans er öllum opið sem það kjósa.

Markmið Verzlunarskóla Íslands með fjarkennslu eru í samræmi við markmið skólans og gildi hans. Með fjarnáminu gefst fleiri nemendum tækifæri til að nema við skólann, en þeim sem geta sótt nám í hefðbundnu dagskólanámi. Fjarkennsla er einnig tækifæri fyrir kennara skólans til að kenna fjölbreyttum nemendahópi með framsetningu námsefnis á rafrænu formi.

Einkunnarorð fjarnámsins eru skipulag, samskipti og sköpun.

Ennfremur eru markmið skólans með fjarkennslu að:

 • Bjóða upp á framsæknar aðferðir í miðlun námsefnis.
 • Gefa kennurum kost á að þróa aðferðir við fjarkennslu.
 • Allir áfangar sem kenndir eru í staðnámi við skólann verði einnig í boði í fjarnámi.
 • Nemendur geti lokið verslunar- og stúdentsprófi af öllum brautum skólans í fjarnámi.
 • Bjóða upp á fagnám í samvinnu við atvinnulífið til að mennta og efla þátttakendur á vinnumarkaðinum.
 • Víkka út landamæri skólans og gefa sem flestum tækifæri til að stunda nám sem þar er í boði, óháð aldri, búsetu og tíma. Þetta á m.a. við þá sem :
  • stunda nám í grunnskólum landsins og vilja hefja framhaldsskólanám sitt áður en þeir innritast í fullt framhaldsskólanám
  • stunda nám í dagskóla Verzlunarskólans en þurfa að taka áfanga í fjarnámi
  • stunda nám í öðrum framhaldsskóla en þurfa eða kjósa að taka áfanga í fjarnámi
  • vilja bæta við sig áföngum vegna fyrirhugaðs háskólanáms
  • hafa ekki lokið námi á framhaldsskólastigi og vilja taka upp þráðinn á nýjan leik
  • eru á vinnumarkaði en vilja styrkja stöðu sína í einstaka áföngum
  • starfa í verslun og þjónustu og vilja efla sig í starfi
  • geta ekki sótt staðnám.

Síðast uppfært: 5.5.2020