Sumarlokun
Skrifstofur skólans verða lokaðar frá mánudeginum 23. júní til kl. 8:00 miðvikudaginn 6. ágúst.
Sumarönn fjarnáms er í gangi og hægt er að hafa samband við fjarnámsstjóra með því að senda póst á fjarnam@verslo.is. Hægt er að sækja um fjarnám á sumarönn til 1. júlí. Fjarnámspróf hefjast 6. ágúst. Sjá nánar próftöflu fjarnáms.
Skólinn verður settur 20. ágúst kl. 10:00 í hátíðarsal skólans.
Innritun 2014 er lokið
Innritun nýnema, þ.e. nemenda úr 10. bekk, er nú lokið. Samtals bárust 650 umsóknir og þar af voru 485 með skólann sem val 1. 340 nemendur voru innritaðir á fyrsta ár og var meginhluti umsókna afgreiddur eftir þeirri röð sem meðaltal skólaeinkunna í fjórum greinum segir til um eða rúmlega 300 umsóknir. Greinarnar eru: íslenska, stærðfræði, sem hafa tvöfalt vægi, og tvær til viðbótar, danska (eða annað Norðurlandamál), enska, náttúrufræði eða samfélagsfræði. Lægsta einkunn var þá 8,8. Síðan voru skoðaðar allar umsóknir nemenda með einkunn 8,0 til 8,8, en það voru 150 umsóknir. Af þeim voru svo valdir um 30 nemendur. Það er mjög sárt að þurfa að vísa frá svo mörgum frábærum nemendum, sem ættu í raun að komast í hvaða skóla sem er.
Hægt var að innrita 19 eldri nemendur, 10 á annað ár, 7 á þriðja ár og 2 á fjórða ár.
Greiðsluseðlar fyrir skólagjöldum verða sendir út þann 20. júní og er gjalddagi 15. júlí og eindagi 7. ágúst.
Að endurtaka áfanga í fjarnámi
Því miður gerist það á hverju ári að nemendur ná ekki þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar í áföngum og þá er mikilvægt að þeir og foreldrar þeirra kynni sér vel hvaða reglur eiga við þegar nemandi fellur í áfanga. Í meginatriðum gerist eftirfarandi:
Nemendur í dagskóla sem falla á vorönn (maí) verða að endurtaka áfangann og verða próf haldin í júní. (Nemendur geta ráðið því hvort þeir taka júníprófin eða ekki. Hins vegar er hér um "tækifæri" númer 2 hjá nemendum að ræða hvort sem þeir taka prófið eða ekki). Þeir sem falla aftur geta þá tekið áfangann í þriðja sinn í fjarnámi VÍ og verða próf haldin í ágúst.