Útskrift 28. ágúst
Föstudaginn 28. ágúst voru fimm nemendur útskrifaðir með stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands. Stúdentarnir eru þau Inga Björk Guðmundsdóttir, Jón Konráð Guðbergsson, Lára Isabelle Sigríður Portal, Stefán Ingi Árnason og Stefán Örn Hannesson. Skólinn óskar þeim innilega til hamingju með áfangann.
Kynningarfundur fyrir foreldra og forráðamenn nýnema
Foreldrafundur fyrir foreldra/forráðamenn nýnema verður haldinn í skólanum fimmtudaginn 27. ágúst nk. kl. 20:00. Dagskráin verður með hefðbundnu sniði þar sem skólastjóri fer í stuttu máli yfir ýmis atriði sem lúta að námi við skólann. Stjórnendur skólans, námsráðgjafar, forvarna- og félagslífsfulltrúar og fulltrúar frá stjórn nemendafélagsins munu sitja fyrir svörum og að því loknu verður foreldrum og forráðamönnum boðið að hitta umsjónarkennara í kennslustofum. Hér er ekki um einstaklingsviðtöl að ræða heldur er gert ráð fyrir að umsjónarkennari hvers bekkjar ræði við alla foreldra/forráðamenn samtímis.
Nýtt upplýsingakerfi

Nú á haustönn flyst nemendabókhald skólans alfarið í Innu sem er upplýsingakerfi framhaldskólanna. Þar með verður hætt að nota gamla upplýsingakerfið/intranetið. Nemendur og forráðamenn geta farið á vefsíðuna nam.inna.is, sett inn kennitölu og valið síðan "Sækja nýtt lykilorð". Þá er lykilorðið sent á einkanetföng forráðamanna og nemanda og jafnframt á skólanetfang nemandans. Einnig er hægt að skrá sig inn með Íslykli og rafrænum skilríkjum. Opnað verður fyrir aðganginn 17. ágúst.
Skólasetning 18. ágúst 2015
Verzlunarskóli Íslands verður settur þriðjudaginn 18. ágúst klukkan 10:00. Athöfnin fer fram í hátíðarsal skólans (Bláa sal) og er ætlast til þess að allir nemendur mæti tímanlega. Vegna mikillar aðsóknar er afar mikilvægt að nýnemar mæti, að öðrum kosti geta þeir átt á hættu að verða af skólavist.
Bókalistann fyrir veturinn má finna undir flipanum „Nemendur“ en einnig er flýtivísun hér.
Sala á bókum og heftum sem ekki eru seld í bókabúðum fer fram í fundarherbergi á 3. hæð 18. ágúst kl. 11 - 15 og miðvikudaginn 19. ágúst frá kl. 8:30 til 13.
Bekkjalistar og stundatöflur munu liggja fyrir við skólasetningu.