
Uppskeruhátíð Fyrirtækjasmiðjunnar
Fyrirtækið Meira úr Verzlunarskóla Íslands var valið fyrirtæki ársins í Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla.
Þriggja mánaða vinnu Fyrirtækjasmiðjunnar lauk í gær miðvikudaginn 26.apríl með skemmtilegri uppskeruhátíð sem var haldin í Háskólanum í Reykjavík. Þar kynntu 15 fyrirtæki sem höfðu komist í úrslit vörurnar sína. Af þessum 15 fyrirtækjum voru 6 frá Verzlunarskólanum og hlutu þau 5 verðlaun af 7 sem veitt voru. Alls voru 64 fyrirtæki úr 11 framhaldsskólum sem tóku þátt í keppninni og komu margar góðar hugmyndir fram.
Fyrirtækið Meira sem hlaut verðlaunin fyrirtæki ársins var stofnað í janúar af fjórum nemendum í 6-H, þeim Einari Snæ Ásbjörnssyni, Einari Gylfa Harðarsyni, Einari Karli Jónssyni og Kára Kristni Bjarnasyni. Hugmynd fyrirtækisins er að búa til sparnaðarapp fyrir ungt fólk. Með því vilja þeir hvetja ungt fólk til að spara og setja markmiðin upp á sýnilegan og flottan hátt. Þeir vilja með þessu auka fjármálalæsi hjá ungu fólki. Fyrirtækið Meira hlaut einnig verðlaun fyrir mestu nýsköpunina. Meira mun fá aðstöðu hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands til að þróa hugmyndina sína og svo mun fyrirtækið fara til Brussel í sumar og keppa fyrir hönd Íslands í Evrópukeppni Ungra frumkvöðla.
Fleiri verðlaun voru veitt á uppskeruhátíðinni, fyrirtækið FÖNKÍ úr 6-E sem framleiðir engiferskot með kollageni hlaut verðlaun fyrir bestu viðskiptaáætlunina, fyrirtækið FURA úr 6-I sem framleiðir bakka með krítartöflum lenti í 3.sæti í fyrirtæki ársins og fyrirtækið Kennaraspil úr 6-I sem framleiðir spil með myndum af kennurum skólans hlaut verðlaun fyrir söluhæstu vöruna.
Verðlaun fyrir bestu markaðsmál voru veitt fyrr á önninni og hlaut fyrirtækið Móðey úr 6-D þau verðlaun. Þau framleiða poka sem eiga að fjarlægja móðu úr bílum.
Önnur fyrirtæki stóðu sig ótrúlega vel og geta nemendur verið stoltir af frammistöðu sinni.

Berlínarferð
Dagana 20. – 23. apríl síðastliðinn dvaldi hópur nemenda úr valáfanganum „Berlín, mannlíf, menning og saga“ í Berlín. Nemendur skoðuðu helstu byggingar og kennileiti borgarinnar eins og Brandenborgar hliðið, þinghúsið, Stasifangelsið í Hohenschönhausen og minnisreitinn um berlínarmúrinn við Bernauerstraße. Nemendur voru til mikillar fyrirmyndar hvar sem þeir komu og voru skólanum til sóma.

Ólympíuleikar í eðlisfræði
Félag raungreinakennara og Eðlisfræðifélag Íslands stóðu fyrir Landskeppni í eðlisfræði og voru fimm einstaklingar valdir í íslenska keppnisliðið á Ólympíuleikana í eðlisfræði sem fram fer í Yogyakarta á Indónesíu 16.-24. júlí.
Þorsteinn Elí Gíslason nemandi Verzlunarskóla Íslands er einn þeirra sem valinn var í landslið Íslendinganna.
Við óskum Þorsteini Elí Gíslasyni til hamingju með árangurinn.

Helga Kress - „Engin hornkerling vil ég vera"
„Engin hornkerling vil eg vera,“ var yfirskrift erindis Helgu Kress sem hún hélt í Bláa sal í gær, miðvikudaginn 5. apríl. Þar gerði Helga grein fyrir hugmyndum sínum um þá frægu persónu, Hallgerði langbrók, sem margir vilja líta á sem fyrsta femínista Íslandssögunnar. Erindi Helgu vakti athygli og hún fékk góða áheyrn og viðbrögð við erindi sínu. Þess má geta að Njála er sívinsæl meðal unga fólksins og hefur um nokkurt skeið verið kennd í 6. bekk.
Vörumessa nemenda
Innan Versló eru nú starfrækt 20 fyrirtæki sem sýndu og seldu afrakstur vinnu sinnar á vörumessu Versló á Marmaranum. Um er að ræða nemendur á viðskiptabraut í 6. bekk í tengslum við Fyrirtækjasmiðjuna, áfanga í rekstrar- og frumkvöðlafræði. Í byrjun annar stofna nemendur á viðskiptabraut fyrirtæki á vegum Ungra Frumkvöðla. Verkefni annarinnar er svo að reka fyrirtækið í sameiningu, hanna, framleiða og selja sínar vörur ásamt því að gera upp fyrirtækið í lok annar.
Áfanginn er kenndur samtímis í 10 framhaldsskólum um allt land og voru fyrirtæki frá öllum þeim skólum samankomin á vörumessu í Smáralind um liðna helgi. Dómnefnd frá Ungum Frumkvöðlum veitti verðlaun fyrir; fallegasta sýningarbásinn: Fyrir hafið (Fjölbrautaskólinn í Garðabæ), mestu nýsköpunina: Meira (Verzlunarskóli Íslands), bestu markaðs- og sölumálin: Móðey (Verzlunarskóli Íslands) og besti Sjó-Bisnessinn: Katla cosmetics (Fjölbrautaskólinn í Armúla). Þema áfangans í ár er einmitt sjórinn/hafið og því eru verðlaunin besti sjó-bisnessinn veitt af Sjávarklasanum.