20. jún. 2017 : Lok innritunar vor 2017

Nú er innritun í Verzlunarskólann lokið. Alls bárust 610 umsóknir; 436 sem val 1 og 174 sem val 2. Í ár voru 280 nemendur innritaðir á fyrsta ár. Hér er um svipaðan fjölda umsókna að ræða og fyrir ári síðan en þá voru teknir inn 336 nemendur í stað 280 nú. Þessi fækkun stafar af því að heimildir skólans hafa verið skertar vegna fækkunar nemenda í framhaldsskólum. Það er alltaf sárt að þurfa að hafna góðum nemendum en vonandi eru allir, sem ekki komust í Verzló, sáttir við sinn varaskóla, enda eru allir framhaldsskólar landsins góður valkostur.
Eins og síðastliðið vor þá fengu nemendur einkunnir gefnar í bókstöfum: A, B+, B, C+, C og D við lok grunnskóla. Þegar umsóknir nemenda voru metnar þá var reiknaður út stigafjöldi fyrir hvern og einn umsækjanda þar sem notast var við tölur frá Menntamálastofnun, sbr. það sem sjá má hér að neðan:

A B+ B C+ C D
4 3,75 3 2,75 2 1

Þetta er eingöngu gert til að flýta fyrir úrvinnslu umsókna. Þær greinar sem voru skoðaðar voru stærðfræði, íslenska, danska (eða eitthvert annað Norðurlandamál), enska, samfélagsfræði og náttúrufræði. Stigafjöldi var síðan reiknaður út með eftirfarandi hætti: stærðfræði og íslenska fá tvöfalt vægi og síðan voru valdar tvær hæstu einkunnir af hinum fjórum. Allir nemendur með hærra en B í öllum greinum voru skoðaðir. Hámarksstigafjöldi var 24, þ.e. nemandi með A í öllum greinum og lágmarkstigafjöldi 18, þ.e. nemandi sem var með B í öllum greinum. Í mörgum tilvikum var erfitt að velja á milli nemenda og var þá eftirfarandi haft í huga: kynjahlutfall þátttaka í félagsstarfi einkunnir í öðrum greinum samræmd próf annað sem gat skipt máli varðandi umsóknina. Af þeim sem voru teknir inn voru 190 nemendur með 23 stig eða meira en 22 nemendur með færri en 22 stig. Umsækjendur komu frá 65 mismunandi grunnskólum á landinu en þeir sem voru teknir inn koma frá 61 grunnskóla. Tekið var inn á brautir og niðurstaðan var eftirfarandi:alþjóðabraut : 1 bekkur nýsköpunar- og listabraut: 1 bekkur náttúrufræðibraut: 5 bekkir viðskiptabraut: 4 bekkir Starfsfólk Verzlunarskólans óskar öllum ánægjulegs sumars.

13. jún. 2017 : Undirbúningsnámskeið í stærðfræði fyrir nýnema

Til þess að tryggja sem jafnastan undirbúning nemenda í stærðfræði verður boðið upp á sérstakt undirbúningsnámskeið (STÆ-Undirbúningur) fyrir nýnema.

Námskeiðið er í tveimur hlutum:

1. hluti: nemendur taka gagnvirkar kannanir á netinu fyrir miðvikudaginn 28. júní. Niðurstöður þeirra verða notaðar til að raða nemendum í hópa (niðurstöðurnar gilda ekki til einkunna, þær eru einungis tæki fyrir okkar til að reyna að mæta nemendum þar sem þeir eru staddir)

2. hluti: staðlota í húsnæði Verzlunarskólans (einungis fyrir þá sem ljúka 1. hluta tímanlega)

mán 14. ágúst kl: 9-12

þri 15. ágúst kl: 9-12

mið 16. ágúst kl: 13-16

Staðlotan endar á skriflegu prófi, þeir sem ná prófinu fá eina einingu fyrir námskeiðið

Námskeiðið verður í umsjá stærðfræðikennara skólans. Farið verður yfir brotareikning, þáttun, jöfnur og rúmfræði. Námskeiðið er valfrjálst en sem viðmið eru hér nokkur dæmi sem eru sambærileg þeim sem farið verður í á námskeiðinu. Svör við dæmunum má nálgast hér . Geti nemandi leyst dæmin með góðu móti er hann hugsanlega með næga færni og getur sleppt námskeiðinu.

Skráning fer fram á heimasíðu fjarnámsins . Athugið, að skráningu lokinni þarf að smella á hnappinn „staðfesta og senda inn umsókn“ og fær viðkomandi þá tölvupóst um leið. Síðasti dagur til að skrá sig á námskeiðið er mánudagurinn 26. júní. Námskeiðið er nemendum að kostnaðarlausu.