29. sep. 2017 : Nemendur í frönsku skiptast á heimsóknum við frönsk ungmenni

Dagana 15. til 23. september dvaldi 21 manna nemendahópur ásamt tveimur kennurum í borginni Rennes á Bretagne skaga. Nemendur sem allir eru með frönsku sem 3. mál, dvöldu hjá frönskum fjölskyldum og kynntust við það frönskum háttum og siðum, auk þess sem þau þjálfuðu færni sína í tungumálinu.
Farið var í skoðunarferðir til Mont Saint Michel, sem er klaustur staðsett á lítilli eyju í Normandy rúmlega einn kílómetra frá norðurströnd Frakklands. Miðaldabærinn Fougière var heimsóttur, farið var til eyjarinnar Bréhat, borgin Rennes var skoðuð auk þess sem nemendur sátu í frönskum kennslustundum.
Vel var tekið á móti hópnum en verið var að endurgjalda heimsókn franskra ungmenna til Íslands í mars 2017. 
Nemendur voru sammála um það að álag við að taka þátt í svona verkefni væri töluvert en það væri þess virði þar sem svona heimsóknir eru mjög lærdómsríkar og gefandi.

IMG_1767_1506602658099

28. sep. 2017 : Nordplus verkefni í Versló

Þessa vikuna stendur yfir fundur í Nordplus verkefni þriggja landa, Íslands, Svíþjóðar og Noregs. Verkefnið ber yfirskriftina Opening Doors into the Global Market og er eins árs verkefni sem nemendur á þriðja ári viðskiptabrautar taka þátt í. Fyrsti fundurinn er haldinn í Versló, annar fundurinn í nóvember í Noregi og sá þriðji í mars 2018 í Svíþjóð. Hlutverk nemendanna er að setja á stofn netverslun og reka hana á meðan á verkefninu stendur.

19. sep. 2017 : Vinningshafar í edrúpotti

 Námsráðgjafar hafa dregið 56 glæsilega vinninga úr edrúpottinum, 32 x 15.000 kr. í peningagjöf frá foreldraráði og 24 vinninga frá skólanum. Á ballinu blésu alls 740 nemendur eða um 46% ballgesta, þar af 475 gestir fæddir 2001.  Við vonum að þessi hvatning í formi vinninga hvetji ennþá fleiri til þess að slást í hópinn með þeim sem nú þegar kjósa að blása á böllunum okkar.

15. sep. 2017 : Jöfnunarstyrkur

Opnað hefur verið fyrir umsóknir vegna jöfnunarstyrks á skólaárinu 2017-2018. Nemendur geta sótt um jöfnunarstyrkinn í gegnum sitt svæði í heimabankanum sínum og/eða Innu, vefkerfi framhaldsskólanna. Umsóknarfrestur vegna haustannar 2017 er til 15. október næstkomandi! 

7. sep. 2017 : Samstarf milli Verzlunarskólans og Gribskov menntaskólans

Þessa vikuna eru nemendur Verzlunarskólans í nemendaskiptaferð í Danmörku ásamt kennurum. Þau hafa meðal annars heimsótt  Kronborgarhöll og hlotið fræðslu um Hamlet.

 

6. sep. 2017 : Nordplus verkefni milli Verzló og Rysensteen - Innovativ nordisk forskning í bekæmpelsen af globale energi og sundhedsprovlemer

Í gær komu til landsins 27 nemendur ásamt kennurum frá Rysensteen Menntaskólanum í Kaupmannahöfn. Heimsóknin sem stendur yfir í viku er liður í  Nordplus samstarfi skólanna og er þetta fyrri heimsóknin af tveimur því í byrjun október fer íslenski hópurinn til Kaupmannahafnar. Á meðan á samstarfinu stendur í báðum löndum munu nemendur vinna verkefni sem lúta að þema verkefnisins ásamt því að heimsækja fyrirtæki og stofnanir eins og deCODE, virkjanir, háskóla ofl.

1. sep. 2017 : Útskrift

Föstudaginn 1. september voru þrír nemendur útskrifaðir með stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands. Það eru þau Kjartan Gunnarsson, Kristín Andrea Aikman Andradóttir og Ýmir Guðmundsson. Skólinn óskar þeim innilega  til hamingju með áfangann.