
Valdimar Hergeirsson
Valdimar Hergeirsson, fyrrverandi yfirkennari Verzlunarskóla Íslands, lést þann 28. október síðastliðinn. Valdimar og Verzlunarskólinn áttu samleið í um hálfa öld. Hann hóf nám við skólann 1945 og útskrifaðist sem stúdent vorið 1952. Að loknu stúdentsprófi lagði Valdimar stund á viðskiptafræði við Háskóla Íslands og háskóla í Bandaríkjunum. Árið 1960 var Valdimar ráðinn til starfa við Verzlunarskóla Íslands og lét af störfum sem yfirkennari árið 2000 sökum aldurs en sinnti ýmsum kennslustörfum til ársins 2004.
Styrkur frá foreldraráði til Bókasafns VÍ
Bókasafnið fékk afhentan veglegan styrk frá foreldraráði. Keyptar voru bækur, hleðslutæki fyrir síma og fartölvur, spil, heyrnartól og fleira. Gjöfin kemur að mjög góðum notum og eru kennarar t.a.m. nú þegar farnir að nota spilin bæði í tungumálakennslu og í lífsleiknitímum. Nemendur gleyma gjarnan hleðslutækjum fyrir fartölvur sínar og síma og því gott að geta heimsótt safnið og fengið hleðslutæki að láni.
Starfsmenn bókasafnsins þakka foreldraráði kærlega fyrir rausnarlega gjöf.
Nemendur VÍ tóku þátt í Erasmus+ fundi í Finnlandi, í 6 landa verkefni
Dagana 1.-7. október tóku nokkrir nemendur í 3-A ásamt tveimur kennurum þátt í Erasmus+ fundi í verkefninu Welcome to My City í Hyvinkää í Finnlandi. Nemendurnir dvöldu á finnskum heimilum og unnu saman að ýmis konar verkefnum sem lúta að þema verkefnisins í skólanum. Þannig kynntust þeir bæði finnsku fjölskyldulífi og skólalífinu. Verkefnin voru að ýmsum toga. Nemendur hvers lands kynntu og sögðu frá verkefnum sem þau höfðu unnið í sínum skóla. Á meðan á fundinum stóð unnu nemendur saman í hópum þvert á landamæri og kynntu síðan niðurstöður sínar. Einnig gafst tími til að fara í dagsferð til Helsinki þar sem skoðaðar voru byggingar, minnismerki og farið í Þjóðminjasafnið. Farið var í skógarferð, kveikt bál og snúbrauð grilluð á teini, fyrirtæki heimsótt o.fl. Dvölin í Finnlandi var þroskandi og skemmtileg bæði fyrir nemendur og kennara.