
Árleg ræðukeppni á ensku
Þrír nemendur skólans, þau Damian Motybel, Emilía Björt Pálmarsdóttir og Kjartan Ragnarsson, kepptu um helgina í hinni árlegu ræðukeppni á ensku. Þau stóðu sig öll einstaklega vel og fluttu ræður sínar af miklum eldmóði. Þema keppninnar var "The best way to predict the future is to invent it". Þau komust öll þrjú í úrslit og í lok dags stóð Kjartan uppi sem sigurvegari keppninnar. Að launum fékk hann þátttökurétt í alþjóðlegri ræðukeppni á vegum The English Speaking Union sem haldin verður í London í vor.
Skólinn óskar þeim til hamingju með árangurinn.

Nordplus – Redo för arbetslivet
Þessa vikuna stendur yfir í skólanum Nordplus fundur í verkefninu Undirbúningur fyrir atvinnulífið. Í verkefninu taka þátt ásamt Verzlunarskólanum, tveir skólar í Helsinki og einn skóli í Stokkhólmi.
Eins og heiti verkefnisins bendir til fjallar það um hvernig hægt er að undirbúa sig sem best í atvinnuleit, þ.e. hvernig skrifar maður ferilskrá og hvernig undirbýr maður sig fyrir atvinnusamtal.
Á meðan á fundi stendur vinna nemendur saman í hópum ýmis konar verkefni sem lúta að þema verkefnisins, þau fá fyrirlesara úr atvinnulífinu í skólann eða fara í fyrirtækjaheimsóknir. Á mánudag kom ein af starfskonum Capacent í heimsókn og talaði um mikilvægi þess að vanda vel til ferilskrárgerðar og hvernig ætti að undirbúa sig fyrir starfsviðtal. Seinni part dagsins fór hópurinn síðan í heimsókn í Íslandsbanka. Í gær kom John Snorri Sigurjónsson í heimsókn og sagði frá leiðangri sínum í fyrra á topp K2. Á morgun lýkur fundavikunni með heimsókn í Viðskiptaráð Íslands og annað kvöld verða nemendur með kveðjuhóf í skólanum.

Vinningshafar í edrúpotti
Dregnir voru 48 glæsivinningar úr edrúpottinum eftir Nemóballið. Alls blésu 654 nemendur af 1559 eða um 42% ballgesta. Við erum ótrúlega stolt af okkar fólki. Á myndinni má sjá nöfn vinningshafa og vinninga sem koma bæði frá foreldrafélaginu og skólanum.
Reykjavíkurleikarnir
Reykjavíkurleikarnir, Reykjavík International Games, fóru fram um helgina. Alls tóku 80 skylmingamenn á öllum aldri þátt og hefur mótið aldrei verið sterkara en í ár. Andri Nikolaysson Mateev og Daníel Hugi Magnússon, nemendur VÍ, tóku þátt og stóðu sig með stakri prýði.
Daníel Hugi varð í 3 sæti í karlaflokki og í flokki U17 (17 ára og yngri). Andri Nikolaysson gerði sér lítið fyrir og vann mótið með miklum yfirburðum og var valinn besti skylmingamaður mótsins.
Skólinn óskar Andra og Daníel innilega til hamingju með árangurinn.