
Samræmt próf
Mánudaginn 9. apríl verður lagt sameiginlegt próf í íslensku og stærðfræði fyrir báða útskriftarárgangana. Um er að ræða próf sem byggt er á spurningabanka frá Menntamálastofnun og er á sambærilegu formi og A-próf háskólanna. Tilgangurinn er að bera saman þessa tvo árganga sem útskrifast saman en hafa farið með ólíkum hætti í gegnum skólann.
Prófið hefst klukkan 9:30 og er áætluð klukkustund fyrir hvorn hluta.

Páskafrí
Skólinn verður lokaður í páskafríinu, frá 26. mars til og með 3. apríl. Kennsla hefst aftur samkvæmt stundaskrá miðvikudaginn 4. apríl.

Opið hús
Fimmtudaginn 15. mars verður Verzlunarskóli Íslands opinn fyrir nemendur 10. bekkjar og forráðamenn þeirra á milli kl. 17.00 - 18.30. Sérstök áhersla verður lögð á að kynna námsframboð, þá aðstöðu sem stendur til boða og félagslífið. Skólastjórnendur, kennarar og námsráðgjafar verða á staðnum til að taka á móti gestum og svara spurningum og munu nemendur bjóða upp á leiðsögn um skólann. Bókasafn skólans verður opið gestum og eru allir hjartanlega velkomnir þangað.

Listahátíð útskriftarnema VÍ
Listahátíð útskriftarnema Verzlunarskóla Íslands stendur yfir dagana 14-15. mars frá 17-19 báða dagana. Þessi hátið og allt sem að henni kemur er partur af lokaverkefni 3.B. en þetta er fyrsti árgangurinn til að útskrifast af Nýsköpunar- og Listabraut. Hátíðin fékk nafnið LÚVÍ (Listahátið Útskriftarnema Verzlunarskóla Íslands). Nemendur áttuðu sig fljótt á því að þetta yrði gríðarlega krefjandi verkefni enda er í mörg horn að líta þegar kemur að skipulagningu slíkrar hátíðar. En markmiðið var alltaf að hafa gaman og eru nemendur virkilega þakklátir fyrir að hafa fengið þennan vettvang til að skapa og sýna listir sínar.
Verið velkomin.

Góðir gestir í Versló
Í dag fengu nemendur 3. bekkjar góða gesti. Það voru leikstjóri kvikmyndarinnar, Svanurinn, Ása Helga Hjörleifsdóttir og annar aðalleikari hennar, Þorvaldur Davíð Kristjánsson. Heimsókin var í tengslum við verkefni sem nemendur vinna í íslensku um myndina og söguna Svaninn sem myndin er byggð ár. Þau spjölluðu um myndina og útskýrðu vel hvernig saga verður að kvikmynd. Nemendur tóku vel á móti gestunum og voru duglegir að spyrja þau um efnið.

Lokað vegna árshátíðar
Föstudaginn 9. mars verður Verzlunarskólinn lokaður vegna árshátíðarferðar starfsfólks.

Gestir frá St. George's menntaskólanum
Þessa vikuna dvelja hér á landi 11 nemendur og tveir kennarar frá St. George‘s menntaskólanum á Rhode Island. Heimsóknin er liður í árlegum nemendaskiptum Verzlunarskólans og St. George‘s. Amerísku nemendurnir dvelja á heimilum þeirra nemenda sem sóttu St. George‘s heim á síðastliðnu hausti. Nemendurnir hafa notað vikuna vel, skoðað Reykjavík, farið í dagsferð á Gullfoss og Geysi, í Þjóðminjasafnið og fleira. Í kvöld er svo ferðinni heitið í Bláa lónið. Samskipti milli skólanna hafa staðið yfir í nokkur ár og verið ákaflega farsæl.