
Franskir nemendur í heimsókn
Dagana 26. september – 3. október taka 18 nemendur á 2. ári með frönsku sem 3.mál á móti jafnöldrum sínum úr menntaskólanum Le Lycée Polyvalent Privé Demotz de la Salle frá borginni Rumilly í frönsku ölpunum. Er verið að endurgjalda heimsókn íslenskra ungmenna til Frakklands frá því í byrjun september. Nemendurnir dvelja hjá íslenskum fjölskyldum og kynnast við það íslenskum háttum, siðum og venjum. Auk þess að sitja í tímum mun hópurinn fara Gullna hringinn, heimsækja „Lava Centre“ á Hvolsvelli, fara um Reykjanesið, heimsækja Hellisheiðavirkjun og að lokum Þjóðminjasafnið.

Úttekt á 3. ára náminu - skýrsla
Á vorönn 2018 var gerð ítarleg úttekt á nýju 3. ára námi til stúdentsprófs. Úttektin var fjölþætt og innihélt samræmd próf, rýnihópa nemenda og kennara ásamt viðhorfskönnunum. Í kjölfarið var unnin skýrsla og er hún nú aðgengileg á vef skólans. Skólinn þakkar öllum þeim sem að úttektinni komu.

Landsráðstefna Evrópska Ungmennaþingsins á Íslandi
Verzlunarskóli Íslands hýsir fyrstu landsráðstefnu Evrópska Ungmennaþingsins á Íslandi dagana 21. og 22. sept. á jarðhæð skólans.
Evrópska ungmennaþingið eða European Youth Parliament eru samtök sem hafa það að markmiði að fræða ungmenni um málefni sem snerta Evrópubúa. Samtökin eru starfrækt í 40 löndum álfunnar og eru þau hugsuð fyrir aðildalönd Evrópuráðsins. Unnið er að því að hvetja til virkrar samfélagsþátttöku innan Evrópu og jafnframt að brúa bilið á milli mismunandi menningarheima og skapa umræðuvettvang þar sem ungt fólk fær tækifæri til að koma fjölbreyttum hugmyndum sínum á framfæri og ræða framkvæmd þeirra.
Nemendum, kennurum og öðrum eru velkomið að koma við til að kynna sér starfsemi þessara merkilegra samtaka. Alþjóðlegur andi ríkir í Versló þegar þátttakendur frá 15 evrópulöndum ræða alþjóðleg stjórnmál þessa daganna!
Þessi ráðstefna er fyrsti viðburður samtakanna sem er haldinn á Íslandi, og allir mjög velkomir að kynna sér starsemina okkar og taka þátt í þessu með okkur!

#egabaraeittlif
#egabaraeittlif er minningarsjóður fjölskyldu Einars Darra sem lést langt um aldur fram aðeins 18 ára, hann varð bráðkvaddur á heimili sínu í maí sl. vegna lyfjaeitrunar. Minningasjóðurinn er í nafni Einars Darra og er ætlaður fyrir ungmenni í fíknivanda. Ákveðið hefur verið af forsvarsmönnum sjóðsins að byrja á því að einblína á forvarnir og varpa ljósi á þann allsherjar vanda sem misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum er hér og þá sérstaklega á meðal ungmenna, allt niður í grunnskóla. Algengt er að almenningur og sér í lagi ungmenni geri sér ekki grein fyrir því hversu skaðleg, ávanabindandi og lífshættuleg slík lyf eru og hversu algeng misnotkun á þeim er.

Edrúpotturinn
Fyrsta Verzlóball vetrarins var haldið í Hörpu í gærkvöldi. Eins og venjan er þá er dregið úr hinum vinsæla og glæsilega edrúpotti að balli loknu.
62% ballgesta blésu og skráðu sig þar með í edrúpottinn. Þessi góða þátttaka er besti árangur sem náðst hefur í blæstrinum á þeim 9 árum sem starfsmenn skólans og þá sérstaklega námsráðgjafarnir, hafa staðið vaktina með mælana. Við erum virkilega stolt af edrúpottinum okkar.
Vinningshafar í edrúpottinum hljóta eins og vanalega glæsilega vinninga. Til hamingju vinningshafar !

Nordplus junior nemendaskipti Versló og Rysensteen
Það tóku eflaust margir eftir því að danskir nemendur fjölmenntu um ganga Verzlunarskólans í síðustu viku. Um var að ræða hin árlegu nemendaskipti okkar við Rysensteen gymnasium í Kaupmannahöfn. Verkefnið er styrkt af Nordplus junior og nemendum að kostnaðarlausu.
Dönsku nemendurnir dvöldu á íslenskum heimilum í viku og unnu ýmis verkefni með gestgjöfum sínum. Farið var í vettfangsferðir t.d. í Hellisheiðavirkjun og Deildartunguhver og Decode. Á næstunni munu Verzlingar endurgjalda heimsóknina og dvelja í viku í Kaupmannahöfn hjá dönskum gestgjöfum.

Nemendur í frönsku skiptast á heimsóknum við frönsk ungmenni frá Rumilly í Frakklandi
Dagana 5. – 12. september dvaldi 18 manna nemendahópur ásamt tveimur kennurum í Rumilly í frönsku ölpunum. Dvöldu nemendur hjá frönskum fjölskyldum og kynntust við það frönskum háttum, siðum og venjum. Auk þess að sitja í tímum í Le Lycée Polyvalent Privé Demotz de la Salle var farið í fjölda skoðunarferða, m.a. til Lyon, Annecy og Chamonix.
Vel var tekið á móti hópnum og munu frönsku ungmennin koma hingað til lands 26. september og dvelja á íslenskum heimilum til 3. október.