29. maí 2020 : Kynningarefni til nemenda 10. bekkjar í grunnskólum

Vegna óviðráðanlegra orsaka urðum við að hætta við opna húsið okkar sem átti að vera þann 10. mars sl. Hér má nálgast ýmsar upplýsingar um skólann og námið fyrir nemendur og forráðarmenn þeirra.

Kynningarmyndband

Hefur þú áhuga á að sækja um skólavist í Versló? Hér má nálgast algengar spurningar og svör

27. maí 2020 : Endurtektarpróf

Dagana 27.-29. maí  verða endurtektarpróf í dagskólanum og er próftaflan komin á heimasíðuna. Nemendur eru sjálfkrafa skráðir í próf í þeim áföngum sem þeir stóðust ekki. Þeir sem ekki ná endurtektarprófi, eða kjósa að þreyta þau ekki, þurfa að endurtaka áfangann í fjarnámi Verzlunarskólans. Mikilvægt er að þeir nemendur, sem ekki ná endurtektarprófi, skrái sig sjálfir í fjarnámið á heimasíðu skólans um leið og niðurstöður liggja fyrir.

Skráning í fjarnám VÍ er frá 19. maí –1. júní og er öllum opið. Nemendur VÍ geta skráð sig til 5. júní. 

Aðrar dagsetningar fjarnámsins:
2. júní: Nemendur fá send aðgangsorð að kennslukerfinu (Moodle), kennsla hefst.
16. júní: Próftaflan kemur á netið
5. - 12. ágúst: Sumarannarpróf.

26. maí 2020 : Verslingur sigraði Þýskuþraut 2020

Það er skólanum mikill heiður að sá sem sigraði í Þýskuþraut framhaldsskólanna var Stefán Þór Sigurðsson nemandi í 2-B. Óskar skólinn honum innilega til hamingju með árangurinn.

Í verðlaun hlaut hann mánaðardvöl í Þýskalandi í sumar, en vegna Covid – 19 verður því miður ekkert af ferðinni. Á myndinni má sjá Stefán Þór með viðurkenningu frá Félagi þýskukennara á Íslandi.

Þess má geta að Verzlunarskólinn átti nemanda 15. sæti en það er Hlynur Orri Gunnarsson í 2-U. Óskar skólinn honum einnig innilega til hamingju.

25. maí 2020 : Brautskráning 2020

Brautskráning stúdenta frá Verzlunarskólanum fór fram laugardaginn 23. maí við hátíðlega athöfn í hátíðarsal skólans. Vegna ástandsins í landinu var ekki hægt að hafa brautskráningu stúdenta með hefðbundnum hætti. Útskriftarnemendur og foreldrar sátu úti í bílum á bílaplönum kringum skólann og hlustuðu á ræðu skólastjórans og fylgdust með athöfninni í gegnum símtæki sín. Engir gestir voru í salnum og aðeins einn bekkur í einu fór inn og tók við skírteinum sínum. Útskriftarnemendurnir fengu blíðskaparveður á útskriftardaginn og myndaðist skemmtileg stemning á bílaplönum skólans á meðan nemendur biðu eftir því að vera kallaðir inn í skólann í röð, með tvo metra á milli, að taka á móti skírteinum sínum.

22. maí 2020 : Brautskráning í beinni útsendingu laugardaginn 23. maí klukkan 14:00

Hér má fylgjast með beinni útsendingu brautskráningar þann 23. maí klukkan 14:00.

Dagskráin hefst á píanóleik Magnúsar Jóhanns Ragnarssonar fyrrverandi nemenda skólans.  Því næst taka Jón Jónsson og Björg Magnúsdóttir við og kynna næstu atriði. Dagskráin verður glæsileg að vanda þar sem meðal annars má sjá, tónlistaratriði útskriftarnema, myndband úr skólalífi stúdentsefna og útskriftarræðu Inga Ólafssonar, skólastjóra. Hér má nálgast dagskrá brautskráningarinnar, Dagskrá

18. maí 2020 : Brautskráning í beinni útsendingu

Í ár verður söguleg brautskráning stúdentsefna Verzlunarskóla Íslands 2020 en athöfnin verður í beinni útsendingu á www.verslostudent.is. Á meðfylgjandi mynd má sjá boðskort til stúdentsefna frá Inga Ólafssyni, skólastjóra.

18. maí 2020 : Birting einkunna og prófsýning

Einkunnir birtast í INNU þriðjudaginn 19. maí klukkan 18:00. 

Prófsýning verður rafræn í ár. Nemendur, sem óska eftir að sjá úrlausnir sínar í öðrum prófum en tekin voru í INNU, geta sent póst á kennara sína milli 8:30 og 10:00, miðvikudaginn 20. maí. Þeim póstum sem berast á réttum tíma verður svarað samdægurs en öðrum póstum munu kennarar svara við hentugleika.

Endurtektarpróf fara fram 27., 28. og 29 maí. Próftaflan mun birtast á heimasíðunni í vikunni.

14. maí 2020 : Sálfræðingur

Hæfnikröfur:
Háskólapróf í klínískri sálfræði og starfsréttindi.
Reynsla af skólastarfi er kostur.

Helstu verkefni og ábyrgð:
Ráðgjöf og fræðsla til nemenda skólans vegna mála sem tengjast þeirra persónulegu líðan.
Aðstoða nemendur sem þurfa að komast í sérhæfðari úrræði.
Samstarf við náms- og starfsráðgjafa vegna mála er tengjast líðan nemenda skólans.
Ráðgjöf og fræðsla til starfsmanna skólans vegna mála sem tengjast persónulegri líðan nemenda.
Fræðsla til nemenda skólans t.d. í lífsleikni.
Þátttaka í áfallateymi skólans.
Kynna sálfræðiþjónustu skólans, t.d. á kynningarfundum með foreldrum.

14. maí 2020 : Spænsku- og enskukennari

Kennari í spænsku:
Auglýst er eftir kennara í 100% starf í spænsku. Umsækjandi þarf að hafa háskólapróf í spænsku eða skyldum greinum.

Kennari í ensku:
Auglýst er eftir kennara í 100% starf í ensku. Umsækjandi þarf að hafa háskólapróf í ensku eða skyldum greinum.

Við bjóðum:
Góða vinnuaðstöðu.
Góðan starfsanda á framsæknum vinnustað.

14. maí 2020 : Brautskráning 23. maí kl 14:00

Brautskráning stúdentsefna fer fram í Verzlunarskóla Íslands laugardaginn 23. maí nk. kl. 14. Athöfnin verður snertilaus og send út í beinni útsendingu á verslostudent.is þar sem nemendur og aðstandendur geta fylgst með athöfninni. Engir gestir fyrir utan nýstúdentana verða leyfðir inni í skólahúsinu. Gera má ráð fyrir að athöfnin taki um 2 klst.

14. maí 2020 : Opið fyrir umsóknir í ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Forsætisráðuneytið vekur athygli á að opnað hefur verið fyrir umsóknir í ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Óskað er eftir umsóknum frá ungmennum á aldrinum 13 til 18 ára frá öllum landshlutum. Valdir verða tíu nýir fulltrúar í ráðið sem munu fræðast og fjalla um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna frá og með september 2020 og út vorönn 2021. Tveir fulltrúar frá fyrra starfsári munu halda sæti sínu í ráðinu. Ungmennaráðið mun funda sex sinnum á höfuðborgarsvæðinu og þess á milli í gegnum fjarfundabúnað. Þá mun ungmennaráðið jafnframt funda einu sinni með ríkisstjórninni. Umsóknarfrestur er til og með 24. maí 2020. Fyrir nánari upplýsingar vinsamlegast hafið samband í gegnum ungmennarad@for.is

6. maí 2020 : LÚVÍ 2020

LÚVÍ, Listahátíð útskriftarnema á Nýsköpunar- og listabraut, er að þessu sinni haldið á netinu. Opnun hátíðarinnar er 6. maí og stendur frá kl. 14 – 15:30 en á þeim tíma raðast listaverkin inn á viðburðinn (sjá dagskrá). Hátíðin verður svo opin fyrir gesti fram að útskriftardegi þann 23. maí.

Síða 1 af 2