31. mar. 2021 : Kennsla að loknu páskaleyfi

Nú hefur ný reglugerð um takmarkanir í framhaldsskólum tekið gildi. Það ánægjulegt að geta tilkynnt að skólahald mun hefjast að fullu miðvikudaginn 7. apríl og allir tímar stundatöflu kenndir í staðnámi í skólanum.

Meginbreytingin er sú að nú er grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra á milli aðila. Þetta á við í öllum kennslustofum skólans og á göngum hans.

Þar sem allir árgangar eru að koma í skólann á sama tíma er mikilvægt að nemendur noti þá innganga sem þeirra heimastofa hefur fengið úthlutað. (sjá frétt )

Þá hvetjum við nemendur til að koma með nesti til að minnka sem mest umferð á göngum skólans og við innganga.

Heitur matur verður áfram seldur í gegnum vefverslun Matbúðar. Maturinn er sóttur í Matbúð þegar þið hafið fengið sms um að varan sé tilbúin til afhendingar.

Íþróttakennsla verður áfram í formi útikennslu á meðan núgildandi reglur gilda.

Við gerum okkur öll grein fyrir því að COVID-19 er ekki búið og enn eru smit í samfélaginu okkar. Haldið áfram að fylgjast með fréttum því ófyrirsjáanleikinn er mikill og breytingar geta orðið með stuttum fyrirvara. Við uppfærum heimasíðuna samhliða þeim reglum sem gilda á hverjum tíma.

Stöndum saman og sinnum persónubundnum sóttvörnum með það að leiðarljósi að skólahald geti haldið áfram í staðnámi á þessari önn.

Þá ítrekum við að þeir sem finna fyrir einhverjum einkennum haldi sig heima og fari í sýnatöku.

Við hlökkum til að sjá ykkur í skólanum, alla daga, allan daginn.

Skólastjórnendur

25. mar. 2021 : Kennarar í eðlisfræði, stærðfræði og íslensku óskast

Verzlunarskóli Íslands óskar að ráða kennara, í eftirtaldar námsgreinar skólárið 2021-2022:

 

 

  • Eðlisfræði
  • Stærðfræði
  • Íslenska

25. mar. 2021 : Sálfræðingur óskast

Verzlunarskóli Íslands óskar að ráða sálfræðing í 50% starf skólaárið 2021-2022. Nánari upplýsingar má sjá hér: Sálfræðingur

24. mar. 2021 : Skólinn lokaður - vegna hertra sóttvarnaaðgerða

Vegna hertra sóttvarnaaðgerða þá mun kennsla skólans færast heim frá og með morgundeginum.

Nemendur fá upplýsingar frá kennurum sínum um skipulag kennslu á morgun og á föstudag. Kennarar munu ýmist boða nemendur í rafræna kennslustund á TEAMS samkvæmt stundatöflu eða leggja fyrir verkefni. Þá munu einhverjir kennarar leggja fyrir rafræn próf sem fyrirhuguð voru á morgun eða föstudag.

19. mar. 2021 : Til hamingju Verzló

Verzlunarskóli Íslands vann úrslitaviðureign Gettu betur í kvöld gegn Kvennaskólanum í Reykjavík. Strax eftir hraðaspurningarnar hafði liðið fjögurra stiga forskot og lauk keppninni með 31 stigi gegn 17. Í liði Verzlunarskólans voru þau Eiríkur Kúld Viktorsson, Gabríel Máni Ómarsson og Áróra Friðriksdóttir. Skólinn óskar liðinu til hamingju með þennan frábæra árangur en þetta er fyrsti sigur Verzlunarskólans í keppninni í 17 ár.

18. mar. 2021 : Takk fyrir komuna

Verzlunarskólinn þakkar 10. bekkingum kærlega fyrir heimsóknina í síðustu viku. Það var mjög ánægjulegt að geta boðið 10. bekkingum í heimsókn til okkar og við erum mjög þakklát fyrir þann mikla áhuga sem þeir sýndu skólanum. Við vonum að 10. bekkingar hafi notið heimsóknarinnar og fengið góða tilfinningu fyrir því sem skólinn hefur upp á að bjóða, bæði í námi og félagslífi. Þeim sem ekki komust á opna húsið eða vilja afla sér frekari upplýsinga er bent á heimasíðu skólans. Þar er að finna allar helstu upplýsingar um innritunina og námsbrautirnar. Á heimasíðunni er einnig að finna svör við algengustu spurningum sem við höfum fengið á skólakynningum í gegnum tíðina.

18. mar. 2021 : Bjargráður með skyndihjálparkennslu

Nemendur á 1. ári fengu góða gesti í heimsókn í vikunni. Hingað kom fríður flokkur læknanema á 1. ári sem eru félagar í Bjargráði. Bjargráður er félag sem stofnað var af nokkrum læknanemum við Háskóla Íslands og hefur félagið það að markmiði að efla skyndihjálparkunnáttu í grunn- og framhaldsskóla. Í hópunum voru nokkrir fyrrum nemendur skólans sem gaman var að hitta aftur á þessum vettvangi. Við þökkum Bjargráði kærlega fyrir heimsóknina og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.

12. mar. 2021 : Umhverfisdagur Verzló - 15. mars

Nú á dögunum hafa nemendur úr umhverfisstjórnunar áfanga skólans lagt á laggirnar Umhverfisdag sem mun fara fram mánudaginn 15. mars. Dagurinn er notaður til þess að vekja athygli nemenda á umhverfismálum og þá einkum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Í tilefni dagsins munu nemendur halda kökusölu á öllum hæðum skólans þar sem seldar verða kolefnisjafnaðar kökur. Fyrir hverja kökusneið sem selst mun tré vera plantað í samvinnu við kolefnissjóðinn Kolvið og er tilgangur sjóðsins að hjálpa til við að draga úr styrk koldíoxíðs í andrúmslofti.
Umhverfisstefna VÍ er á heimasíðu skólans og eru allir hvattir til að kynna sér hana. 

IMG_2446-2-_1614673774893

3. mar. 2021 : Opið hús 9., 10. og 11. mars

Í ljósi nýrrar reglugerðar um sóttvarnir í skólum, sem tók gildi 24. febrúar, er ánægjulegt að geta tilkynnt að við munum opna hús okkar fyrir nemendum sem ljúka 10. bekk nú í vor.

Opna húsið verður dagana 9., 10. og 11. mars og þurfa nemendur að skrá sig sérstaklega á ákveðna heimsóknartíma vegna fjöldatakmarkana. Við hvetjum áhugasama til þess að skrá sig sem fyrst og nýta sér þetta tækifæri til þess að kynna sér betur það sem skólinn hefur uppá að bjóða og fá svör við þeim spurningum sem þeir kunna að hafa.

Á opna húsinu fá 10. bekkingar upplýsingar um námið og námsframboðið, skoðunarferð um skólann og kynningu á félagslífi nemenda.

1. mar. 2021 : Nemó

Eins og allt á þessu skólaári er Nemendamót skólans með breyttu sniði. Hver árgangur fær sinn Nemódag og mætir þá á FEIM sýninguna sem sýnd er í íþróttasal skólans. Einnig er annáll nemendafélagsins sýndur. Öll kennsla fellur niður hjá árganginum sem á nemódaginn þann daginn.