29. maí 2021 : Brautskráning 2021

Brautskráning stúdenta frá Verzlunarskólanum fór fram laugardaginn 29. maí við hátíðlega athöfn í hátíðarsal skólans. Ingi Ólafsson, skólastjóri, hefur starfað við skólann í 32 ár og verið skólastjóri í 14 ár og var þetta hans síðasta útskrift þar sem hann mun senn láta af störfum. Eins og fram kom í ræðu hans fór hefðbundið skólahald verulega úr skorðum á árinu 2020 og þurftu nemendur að vera stóran hluta ársins heima á meðan kennslan fór fram í gegnum netið. Sama má segja um brautskráninguna en ekki er hægt að segja að um hefðbundna útskrift hafi verið um að ræða. Ingi stóð einn uppi á sviði í hátíðarsal skólans og talaði til nemenda og gesta í gegnum upptökuvélar en vegna fjöldatakmarkana var brautskráningin í beinni útsendingu. Útskriftarnemendur sátu flestir í sínum heimastofum í skólanum og fylgdust með brautskráningunni á skjám og biðu eftir því að vera kallaðir inn til að taka á móti skírteinum sínum. Foreldrar fengu að koma í skólann þegar komið var að brautskráningu bekkjar þeirra barns.

28. maí 2021 : Brautskráning í beinni útsendingu

Vegna fjöldatakmarkana verður brautskráning stúdentsefna Verzlunarskóla Íslands 2021 í beinni útsendingu á www.verslostudent.is . Stúdentsefnin mæta í hús klukkan 12:45 og safnast saman í heimastofum bekkja. Foreldrar koma inn í hús þegar komið er að bekk þeirra barns. Foreldrar gangi inn frá bílastæði nemenda við Ofanleiti. Starfsmenn skólans verða við inngang til að vísa foreldrum rétta leið. Á meðfylgjandi mynd (smella á myndina til að stækka hana)má sjá boðskort til stúdentsefna frá Inga Ólafssyni, skólastjóra.

25. maí 2021 : Próftafla endurtektarpófa

Dagana 2. - 4. júní verða endurtektarpróf í dagskólanum. Próftöfluna og upplýsingar um greiðslu fyrir hvert próf er að finna hér .

Nemendur sem ekki ná endurtektarprófi, eða kjósa að þreyta þau ekki, þurfa að endurtaka áfangann í fjarnámi Verzlunarskólans. Mikilvægt er að þeir nemendur, sem ekki ná endurtektarprófi, skrái sig sjálfir í fjarnámið á heimasíðu skólans um leið og niðurstöður liggja fyrir. Nemendur VÍ geta skráð sig til 8. júní.

21. maí 2021 : Guðrún Inga nýr skólastjóri Verzlunarskóla Íslands

Guðrún Inga Sívertsen hefur verið ráðin nýr skólastjóri Verzlunarskóla Íslands og tekur hún við af Inga Ólafssyni. Guðrún Inga hefur verið starfsmanna- og þróunarstjóri Verzlunarskólans undanfarin ár, en hefur starfað við skólann nær óslitið frá árinu 2002. Sjálf útskrifaðist hún úr VÍ árið 1997. Guðrún Inga er fyrsta konan til að gegna starfi skólastjóra VÍ í rúmlega 110 ára sögu hans og jafnframt fyrsti Verzlingurinn.

19. maí 2021 : Prófsýning og endurtektarpróf

Prófsýning verður föstudaginn 21. maí milli 8:30 og 9:45.
Endurtektarpróf verða haldin dagana 2.-4. júní. 
Nánari próftafla endurtektarprófa mun birtast þriðjudaginn 25. maí.
Nemendur sem þurfa að þreyta endurtektarpróf eru sérstaklega hvattir til að mæta á prófsýningar og skoða prófúrlausnir sínar. Vegna persónuverndarsjónarmiða geta nemendur einungis séð eigin úrlausnir og tekið af þeim myndir. Ekki er leyfilegt að samnemandi taki myndir af prófúrlausnum bekkjarsystkina. Komist nemandi ekki á prófsýningu geta foreldrar komið fyrir hönd barna sinna ef þau eru yngri en 18 ára. Nemendur sem ekki komast á prófsýningu og eru með fall í lokaprófi og á leið í endurtekt, geta sent tölvupóst á kennara sinn daginn sem einkunnir eru birtar og óskað eftir að fá prófúrlausn sína senda til sín í tölvupósti. Athugið að þetta á einungis við um nemendur sem falla í áfanga og þurfa að endurtaka hann. Nemendur sem ekki komast á prófsýningu um jól geta óskað þess í janúar að sjá prófúrlausn sína hjá kennara eða á skrifstofu skólans.

Endurtektarpróf verða haldin dagana 2.-4. júní. Því miður gerist það á hverju ári að nemendur ná ekki þeim lágmarkskröfum sem til þeirra eru gerðar í áföngum og þá er mikilvægt að þeir og foreldrar þeirra kynni sér vel hvaða reglur eiga við þegar nemandi fellur í áfanga. Í meginatriðum gerist eftirfarandi: Nemendur sem falla á vorönn (maí) verða að endurtaka áfangann og verða próf haldin í júní. (Nemendur geta ráðið því hvort þeir taka júníprófin eða ekki. Hins vegar er hér "tækifæri" númer 2 hjá nemendum hvort sem þeir taka prófið eða ekki). Þeir sem falla aftur geta þá tekið áfangann í þriðja sinn og eiga að gera það í fjarnámi VÍ. Próf í fjarnámi verða haldin í ágúst. Nánar má lesa um reglur skólans á heimasíðunni.

Nemandi má að hámarki endurtaka 3 áfanga. Falli hann í fleirum en þremur áföngum (vélritun telst ekki með) þá telst hann endanlega fallinn á árinu og hefur ekki rétt til endurtöku áfanga. Ef nemandi fellur þrisvar í sama áfanga telst hann endanlega fallinn. (Unnið úr skólareglum á netinu.)

18. maí 2021 : Brautskráning stúdenta

Brautskráning stúdenta mun fara fram í húsnæði skólans laugardaginn 29. maí næstkomandi. Athöfnin fer fram í Bláa sal og hefst klukkan 13:00. Gera má ráð fyrir að útskriftin taki um tvo og hálfan tíma og verður streymt frá athöfninni líkt og í fyrra. Endanlegt fyrirkomulag og aðkoma foreldra að athöfninni mun ráðast af þeim sóttvarnartakmörkunum sem þá verða í gildi. Nánari upplýsingar koma síðar.

18. maí 2021 : Brautskráning Fagnáms verslunar og þjónustu

Föstudaginn 28. maí kl. 14:00 munu nemendur sem hafa lokið námi í Fagnámi verslunar og þjónustu taka á móti skírteinum sínum. Fagnám verslunar og þjónustu er ný námslína ætluð starfandi verslunarfólki samhliða vinnu. Námsbrautin er samstarfsverkefni skólans og Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks.

18. maí 2021 : Fyrirtækið Hrauney valið fyrirtæki ársins 2021 í samkeppni Ungra frumkvöðla

30 fyrirtæki frá 15 framhaldsskólum tóku þátt í úrslitum Fyrirtækjasmiðju Ungra fjölmkvöðla 2021. Fyrirtækjasmiðjan er áfangi á vegum Ungra Frumkvöðla sem kenndur er á viðskiptabraut á 3. ári. Í áfanganum stofna nemendur fyrirtæki í byrjun annar og starfrækja í þrjá mánuði.

Það var fyrirtækið Hrauney, sem var stofnað í upphafi árs af sex nemendum Verzlunarskóla Íslands í 3-I, þeim Önnu Alexöndru Petersen, Layfeyju Jökulsdóttur, Maríu Valgarðsdóttur, Söru Ellertsdóttur, Sif Þórsdóttur og Tinnu Björgu Ólafsdóttur, sem bar sigur úr býtum og var valið fyrirtæki ársins 2021. Hrauney framleiðir stílhreinan reykelsisstand úr 100% íslensku hrauni.

14. maí 2021 : Kennarar í ensku og tölvunotkun og forritun

Verzlunarskóli Íslands óskar að ráða kennara, í eftirtaldar námsgreinar skólárið 2021-2022:

  • Enska
  • Tölvunotkun og forritun

. Nánari upplýsingar má sjá hér: Kennarar

10. maí 2021 : Þýskuþraut

Þann 24. mars var haldin hin árlega þýskuþraut og tóku fjölmargur nemendur úr framhaldsskólum landsins þátt. Sigurbjörg Guðmundsdóttir úr 3-A hafnaði í 4. sæti. Á myndinni má sjá hana með viðurkenningu frá Félagi Þýzkukennara og einnig mun sendiherra Þýskalands, Dietrich Becker, bjóða nemendum sem lentu í 15 efstu sætunum til sín í sendiherrabústaðinn þann 25. maí næskomandi. Við óskum Sigurbjörgu innilega til hamingju með þennan árangur.

2. maí 2021 : Útskriftarnemendur kveðja skólann

Á föstudaginn síðastliðinn mætti þriðja árið í skólann og kvaddi kennara sína og skólann. Dagskráin var nokkuð hefðbundin en framkvæmdin öðruvísi vegna fjöldatakmarkana. Bekkirnir héldu til í sinni heimastofu en komu ekki saman í Bláa sal eins og venja er. Hver bekkur mætti í sína heimastofu og hélt lítið pálínuboð, ræðuhöld og skemmtiatriði voru svo streymd inn í heimastofur úr Bláa sal og að lokum fór afhending Spégrímunnar fram. Þetta var frábær dagur og skólinn óskar nemendunum góðs gengis í væntanlegri prófatörn.