30. sep. 2021 : Heimsókn til Færeyja

Norður- Atlantshafsbekkurinn okkar, 2N NGK, var heimsóttur í Miðnám í Kamsdal nú fyrr í mánuðinum og voru móttökurnar vægast sagt frábærar. Bekkurinn kemur til Íslands í janúar 2022 og hefur þá nám í Versló. Því næst heldur hann til Grænlands haustið ‘22 og útskrifast með danskt stúdentspróf þar í landi vorið ‘23. Lífið í Færeyjum er töluvert ólíkt því sem þau kynntust í Danmörku þar sem fyrsta námsárið fór fram. Þá er að sögn hópsins allt miklu rólegra og yfirvegaðra í Færeyjum. 

30. sep. 2021 : Erasmus+ fundur í Versló – menntun fyrir þig!

Í vikunni 4. – 9. október verður haldinn Erasmus+ fundur í verkefni sem heitir Edu4u í Versló. Þátttakendur eru kennarar og nemendur frá Tékklandi, Póllandi og Portúgal. Nemendur í 3-A eru gestgjafar og munu ásamt hópi kennara og starfsmanna vinna með þeim fjölbreytt verkefni og kynna Ísland fyrir þeim. Viðfangsefni verkefnisins eru fjölbreytt – það verður unnið að hönnun í fablabbi, farið í útikennslu og tekist á ræðukeppnum um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þetta er fyrsti alþjóðafundurinn sem er haldinn í Versló eftir að öllu var skellt í lás út af Covid sem er með fullri þátttöku kennara og nemenda í skólanum, svo þetta heyrir til tíðinda og er vonandi vísbending um bjartari tíma framundan! 

30. sep. 2021 : Menntabúðir á Marmara

Nýlega voru haldnar menntabúðir í skólanum þar sem kennarar og annað starfsfólk kom saman til þess að miðla af eigin reynslu og þekkingu og afla sér fróðleiks frá öðrum þátttakendum.

Hægt var að rölta á milli tólf stöðva og voru umfjöllunarefnin af ýmsum toga, svo sem spennandi forrit, áhugaverðar kennsluaðferðir, námsmat o.fl. Stöðvastjórar menntabúða voru bæði kennarar skólans og starfsfólk stoðdeilda og voru umfjöllunarefnin bæði fróðleg og skemmtileg.

24. sep. 2021 : Myndir frá Peysufatadeginum og nöfn vinningshafa

Peysufatadagur Verzunarskóla Íslands var haldinn hátíðlegur í gær þar sem nemendur klæddu sig upp í ís­lenska þjóðbún­ing­inn og dönsuðu í Hörpu. Dagurinn er árleg hátíð nemenda á öðru ári við skólann en vegna kórónuveirunnar gátu nemendur ekki haldið daginn hátíðlegan á síðasta ári. Nemendurnir að þessu sinni eru því á þriðja ári. Mikil tilhlökkun var hjá nemendum og skemmtu þeir sér konunglega. Um kvöldið var haldið ball og blésu 70 nemendur á ballinu. Dregið var úr edrúpottinum og fjórir heppnir þátttakendur fengu 15. þúsund kr. gjafabréf frá Foreldrafélagi VÍ. Það eru þau:
Jóhanna Lilja P. Guðjónsdóttir 3-U
Eva Björnsdóttir 3-D
Una Bóel Jónsdóttir 3-U
Axel Örn Heimisson 3-T

21. sep. 2021 : Peysufatadagurinn í Hörpu

Það er komið að því að nemendur geti haldið peysufatadag Verzlunarskólans. Athugið breytta dagskrá og staðsetningu vegna veðurspár.

Dagurinn er á fimmtudaginn kemur og hér að neðan má sjá dagskrá dagsins sem bekkjarráðið hefur sett saman.

Við hvetjum forráðamenn til að gera sér ferð í Hörpuna og fylgjast með þeim þegar þau stíga dansinn í Hörpu.

9:00 Mæting í Verzló

9:30 Athöfn í Bláa sal

10:30 Morgunmatur og afhending bóka

11:45 Rútur frá skólanum að Hörpu

12:20 Dansað í Hörpu

12:55 Myndataka í tröppunum á Hörpu

13:40 Matur í Gullhömrum (rútur frá Hörpu að Gullhömrum)

22:00 Peysufataball í Gamla bíó. Ballinu lýkur klukkan 01:00

16. sep. 2021 : Heimboð í Verzló fyrir forráðamenn nemenda á 2. ári

Forráðamönnum nemenda á 2. ári er boðið í skólann mánudaginn 20. september klukkan 17:00. Við óskum eftir því að aðeins einn forráðamaður mæti frá hverjum nemenda. Kynning á skólanum fer fram í Bláa sal (2. hæð) þar sem farið verður yfir ýmis atriði sem lúta að námi við skólann. Jafnframt mun fulltrúi frá stjórn NFVÍ segja frá því sem ber hæst á árinu.

Grunnthaettir-menntunar

10. sep. 2021 : Grunnþættir menntunar í Verzló

Mikilvægur þáttur í skólastarfi Verzlunarskóla Íslands er að meta starfið og sjá hvað vel er gert og gera umbætur þar sem þurfa þykir. Síðastliðið vor var efnt til starfsdags meðal starfsmanna skólans til að rýna í hvernig og hversu mikið unnið er með grunnþætti menntunar. Grunnþættir menntunar birtast í menntastefnu Aðalnámskrá framhaldsskólanna frá 2011 sem reist er á sex grunnþáttum: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindum, jafnrétti og loks sköpun. Þessum sex grunnþáttum er ætlað að fléttast inn í allt skólastarfið. Við gerð námskrár skólans sem tók gildi árið 2015 var sérstaklega tekið mið af grunnþáttunum og þótti því áhugavert að sjá hvernig til hefði tekist nokkrum árum síðar. Fyrir áhugasama má lesa nánar um grunnþætti menntunar á blaðsíðu 14 í Aðalnámskrá framhaldsskólanna.

Á starfsdeginum rýndu fögin í áfanga sína og stoðdeildir skólans í skólastarfið sem birtist fyrir utan skólastofurnar. Þátttakendur voru beðnir um að skrifa með hvaða hætti unnið væri með hvern og einn grunnþátt í áföngunum eða í öðru sem sneri að skólastarfinu og gefa hverjum þætti einkunn frá einum til fimm. Einkunnir sem starfsfólk skólans gaf grunnþáttunum sést á kökuritinu hér fyrir neðan.

10. sep. 2021 : Viðhaldsúttekt jafnlaunakerfis Verzlunarskóla Íslands 2021

Fyrir ári síðan fékk skólinn jafnlaunavottun og í júní sl. fór fram viðhaldsúttekt á jafnlaunakerfinu sem skólinn stóðst án athugasemda. 

Verzlunarskóli Íslands starfrækir jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur sem settar eru fram í staðlinum ÍST 85:2012 og nær til allra starfsmanna Verzlunarskólans. Markmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að launajafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Með þessu á að tryggja jafnan rétt, jöfn laun og sömu réttindi og kjör fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, óháð kyni. Jafnlaunakerfi Verzlunarskóla Íslands hefur hlotið vottun frá vottunarstofunni iCert og í kjölfarið hefur Jafnréttisstofa veitt skólanum heimild til að nota Jafnlaunamerkið. Jafnlaunamerkið er skráð vörumerki og er því ætlað að vera gæðastimpill og hluti af ímynd og orðspori fyrirtækja og stofnana. Merkið staðfestir að komið hafi verið upp ferli sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir feli ekki í sér kynbundna mismunun.

10. sep. 2021 : Núvitundarstundir fyrir nemendur og starfsmenn

Skólinn býður nemendum og starfsmönnum upp á hugleiðslu og núvitund á önninni en verkefnið er eitt af þeim þróunarverkefnum sem skólinn stendur fyrir.

Markmið verkefnisins er að nemendur og starfsmenn staldri við í önnum dagsins og finni hvernig iðkun núvitundar og hugleiðslu eykur vellíðan í leik og starfi.

Verkefninu stýrir Kristín Norland kennari við skólann, sem hefur aflað sér sérþekkingar í núvitundarfræðum.

6. sep. 2021 : Veikindatilkynningar í INNU

Ekki er lengur tekið við fjarvistarskráningu í síma heldur skulu foreldrar og forráðamenn ólögráða nemenda tilkynna veikindi nemenda í INNU. Tilkynna skal alla veikindadaga samdægurs. Lögráða nemendur tilkynna sjálfir veikindi sín samdægurs í INNU. Misfarist skráning skal senda tölvupóst á verslo@verslo.is. Alvarleg veikindi þarf aðeins að tilkynna í upphafi, enda skili nemandi læknisvottorði strax og skólasókn hefst að nýju. Nemendur geta leitað aðstoðar og fengið allar þær upplýsingar sem þeir þurfa á skrifstofu skólans.

Þurfi nemandi leyfi í einstaka tímum að degi til, t.d. vegna tannlæknatíma eða ökuskóla, nægir að koma með kvittun þar að lútandi á skrifstofu skólans. Fjarvistarskráning er svo lagfærð eftir á þegar nemandi hefur skilað inn staðfestingu.

1. sep. 2021 : Tveir fyrrverandi nemendur VÍ fengu styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta HÍ

Síðastliðinn mánudag tóku tveir fyrrverandi nemendur Verzlunarskólans, þau Auðun Bergsson og Kolbrún Sara Haraldsdóttir, við styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Styrkir eru veittir nýnemum við Háskóla Íslands sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum.

Verzlunarskólinn óskar þeim til hamingju.