Ómar Ingi Halldórsson, Elísa Sverrisdóttir, Klara Margrét Ívarsdóttir, Margrét Rán Rúnarsdóttir, Sigurbjörg Guðmundsdóttir og Stefán Þór Sigurðsson.

30. ágú. 2022 : Sex fyrrverandi nemendur VÍ fengu styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta HÍ

Á mánudaginn síðastliðinn tóku sex fyrrverandi nemendur Verzlunarskólans, þau Ómar Ingi Halldórsson, Elísa Sverrisdóttir, Klara Margrét Ívarsdóttir, Margrét Rán Rúnarsdóttir, Sigurbjörg Guðmundsdóttir og Stefán Þór Sigurðsson, við styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Styrkir eru veittir nýnemum við Háskóla Íslands sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum.

Verzlunarskólinn óskar þeim til hamingju. 

24. ágú. 2022 : Kynning fyrir forráðamenn nýnema

Kynningarfundur fyrir forráðamenn nýnema verður haldinn mánudaginn 29. ágúst klukkan 20:00 í húsakynnum skólans.

Á fundinum verður kynning á skólastarfinu, náminu og félagslífi nemenda.

Tölvupóstur var sendur í dag, þriðjudag, forráðamanna nýnema. Notast var við netföng sem gefin voru upp í Menntagátt þegar nemendur sóttu um skólavist.

Þeir forráðamenn sem ekki fengu póst geta bætt sér á pós

22. ágú. 2022 : Bókasafn VÍ

Bókasafnið er staðsett á fjórðu hæð skólans. Mjög góð vinnuaðstaða er fyrir nemendur, þar sem nemendur geta annars vegar valið sér einstaklingsborð og hins vegar lítil og stór hópvinnuborð. Á safninu eru sæti fyrir 110 nemendur, þar er einnig hópvinnuherbergi sem nemendur hafa aðgang að. Á neðri hæð bókasafnsins er lesstofan okkar, þar eru 30 lesbásar og á því svæði ríkir mikill vinnufriður.

Afgreiðslutími bókasafnsins er eftirfarandi:
Mánudaga - fimmtudaga kl. 8:00 - 19:00
Föstudaga kl. 8:00 - 15:00

20. ágú. 2022 : Skólasetning

Verzlunarskólinn var settur í 118. sinn föstudaginn 19. ágúst. Skólastjóri, Guðrún Inga Sívertsen, setti skólann og bauð nýnemum og starfsfólki skólans velkomið. Athöfnin var einungis ætluð nýnemum. 1060 nemendur eru skráðir í dagskóla þetta árið og af þessum 1060 nemendum eru 367 nýnemar. Að skólasetningu lokinni fengu nýnemar kynningu á ýmsum þáttum varðandi skólastarfið, fóru í myndatöku og hittu umsjónarkennara sína. Gleðin skein úr andlitum nýnemanna og greina mátti mikla tilhlökkun hjá þeim við að hefja nám við skólann.

19. ágú. 2022 : Útskrift 19. ágúst

Föstudaginn 19. ágúst voru sex nemendur útskrifaðir með stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands. Stúdentarnir eru þau Aldís Ósk Jónasdóttir, Eydís Lilja Guðlaugsdóttir, Mikael Andri Samúelsson, Sara Líf Fells Elíasdóttir, Sunna Kristín Ríkharðsdóttir og Sylvía Rós Arnarsdóttir. Skólinn óskar þeim innilega til hamingju með áfangann. 

Bóksala VÍ

18. ágú. 2022 : Bóksala VÍ

Sala á bókum og heftum sem ekki eru seld í bókabúðum fer fram í gegnum vefverslun, smellið hér til að komast á réttan stað:

10. ágú. 2022 : Upphaf skólaársins

Skrifstofa Verzlunarskóla Íslands er nú opin og undirbúningur fyrir komandi haustönn er kominn á fullt á sama tíma og sumarönn fjarnáms er senn að ljúka með síðasta prófadegi í dag, miðvikudag 10. ágúst.

Hér að neðan eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga í upphafi skólaárs:

  • Nýnemar sem hefja nám á 1. ári nú í ágúst eru boðaðir á nýnemakynningu föstudaginn 19. ágúst klukkan 10:00. Nýnemar fá kynningu á skólanum og starfinu sem fram undan er auk þess sem bekkir hitta umsjónarkennara sinn.
  • Forráðamönnum nýnema er boðið á kynningarfund í skólanum mánudaginn 29. ágúst klukkan 20:00. Þar fá þeir kynningu á skólastarfinu, félagslífi nemenda auk þess sem tækifæri er til að hitta umsjónarkennara.
  • Kennsla hefst samkvæmt stundatöflu mánudaginn 22. ágúst hjá öllum nemendum en stundatöflur eru nú aðgengilegar í INNU. Þá eru bókalistar einstaka áfanga aðgengilegir í INNU en heildarbókalista fyrir hvert námsár er einnig hægt að nálgast á heimasíðu skólans.
  • Bóksala skólans verður í formi vefverslunar og verður hægt að hefja bókakaup fimmtudaginn 18. ágúst eftir hádegi. Afhending á keyptum bókum fer fram í skólanum og hefst afhending föstudaginn 19. ágúst klukkan 12:00. Bóksala skólans verður opin fyrstu kennsluviku annarinnar og eru nemendur hvattir til að ljúka bókakaupum sem fyrst.
  • Skóladagatal ársins er aðgengilegt á heimasíðu skólans og eru nemendur og forráðamenn þeirra beðnir um að skoða það vel og skipuleggja frítíma sinn í samræmi við dagatalið.
  • Innritun nemenda af biðlista er lokið og ekki verða teknir fleiri nemendur inn í skólann á þessari önn. Upplýsingar um möguleika á skólavist um áramót er hægt að nálgast á heimasíðu skólans.
  • Að gefnu tilefni bendum við nýnemum á að ekki er hægt að óska eftir flutningi á milli bekkja þar sem innritað var í öll pláss í öllum bekkjum sem þýðir að ekkert svigrúm er í bekkjum til að fjölga nemendum.

Það ríkir eftirvænting meðal starfsmanna skólans að taka á móti nýjum og núverandi nemendum skólans. Við horfum björtum augum til skólaársins og hlökkum til samstarfsins við nemendur og forráðamenn þeirra.