
Nemendur fóru í Harry Potter ferð til London
Í þar síðustu viku fóru 70 nemendur ásamt Ármanni, Daða, Láru og Rebekku enskukennurum til London. Ferðin var farin í tengslum við valáfanga í Harry Potter og gist var fjórar nætur, frá miðvikudegi til sunnudags. Heppnin var ekki alveg með hópnum í byrjun ferðar en eins og margir vita eflaust lenti hópurinn í því óhappi að flugvél Korean Air rakst í flugvélina á meðan gengið var frá borði. Blessunarlega slasaðist enginn en afleiðingarnar voru þær að hópurinn fór farangurslaus upp á hostel eftir nokkurra klukkustunda óvissu og næstu dagar lituðust nokkuð af vangaveltum um hvort og hvenær hópurinn fengi farangurinn.

VÍ sigraði MR í ræðukeppni á VÍ-MR deginum
Föstudaginn, 7. október tók Verzlunarskólinn þátt í Morfís og var andstæðingurinn Menntaskólinn í Reykjavík. Umræðuefni keppninnar var Hakuna matata.
Keppnin var haldin í hátíðarsal Verzlunarskólans fyrir troðfullu húsi og mikil stemning ríkti meðal áhorfenda. Lið Verzlunarskólans fór með sigur af hólmi og var María Vignir ræðumaður kvöldsins.
Morfís eða mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskóla Íslands er, eins og nafnið gefur til kynna, ræðukeppni milli framhaldsskóla landsins. Verzlunarskólinn hefur skapað sér góðan orðstír í keppninni.

Eldflaugavísindamenn framtíðar?
Nemendur Mána Arnarsonar eðlisfræðikennarar í bekkjunum 2-T og 2-S skutu upp litlum elflaugum á Klambratúni í vikunni. Vel viðraði og skotin gengu vel fyrir sig. Flug eldflauganna fylgdu lögmálum eðlisfræðinnar í hvívetna. Sumar voru á mörkum þess að komast á loft en aðrar svifu hátt og lentu svo mjúklega með hjálp fallhlífar. Á mynd má sjá elflaugina “Húsvörður 1.0” sem skotið var til heiðurs Eiríks, húsvarðar og sérlegs áhugamanns um eldflaugar.

Foreldrakvöld
Foreldrafélagið stendur fyrir foreldrakvöldi með fræðslu og skemmtun þriðjudagskvöldið, 4.október. Vonumst til að sjá ykkur í Bláa salnum á 2.hæðinni.
Dagskrá kvöldins:
• 19:45-20:00 Aðalfundur Foreldrafélagsins
• 20:00-21:00 Anna Steinsen - Jákvæð menning skapar vellíðan
• 21:00-21:15 Kaffihlé, spjall og léttar veitingar
• 21:15-21:45 Bergur Ebbi - uppistand
- Fyrri síða
- Næsta síða