29. nóv. 2022 : Nemendur heimsóttu Slóvakíu

Í síðustu viku gerðu fjórir nemendur úr 3. A garðinn frægan í Slóvakíu. Þar tóku þeir þátt í verkefni á vegum Erasmus+ en þetta verkefni nefnist Digital Competence and eSafety og er þetta í fimmta skiptið sem nemendahóparnir hittast. Alls eru sex lönd sem taka þátt í þessu verkefni en auk Íslands eru Ítalía, Grikkland, Slóvakía, Svíþjóð og Pólland. Þessi fundur var í borginni Zilina í Slóvakíu og héldu tveir kennarar þangað ásamt fjórum stúlkum af alþjóðabraut. Verkefnið snýst um hættur á internetinu og hvað við getum gert til að varast þær. Gestgjafarnir skipulögðu skemmtilega dagskrá þar sem nemendur tóku þátt í áhugaverðum vinnustofum og fóru í kynnisferðir um svæðið. Nemendur gistu hjá slóvakískum vinum sínum og fengu þar menningu landsins beint í æð. Óhætt er að segja að nemendur okkar hafi vakið mikla athygli og þóttu stelpurnar sérlega opnar og glaðlegar og smitaðist sú gleði innan hópsins. Það er samdóma álit allra þeirra sem taka þátt í þessu verkefni að sú reynsla, þekking og upplifun sem á sér stað á þessum fundum er ómetanlegur fjársjóður. 

Heimsmarkmiðin

29. nóv. 2022 : Verzlunarskóli Íslands orðinn UNESCO-skóli

Verzlunarskóli Íslands er nú orðinn UNESCO- skóli. Nemendur á 1. ári unnu nýverið þróunarverkefni um heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun. Verkefnið var samþætt fjórum námsgreinum, ensku, hagfræði, íslensku og tölvunotkun. Verkefnið var sett af stað með fyrirlestri frá Kristrúnu Maríu Heiðberg, verkefnastjóra UNESCO-skóla þar sem hún fjallaði um heimsmarkmiðin. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra heimsótti einnig nemendahópinn þegar verkefnið var komið lengra af stað og ræddi meðal annars um menntun og heimsmarkmiðin.

24. nóv. 2022 : Frábær árangur Ásgerðar Söru í alþjóðlegri píanókeppni

Ásgerður Sara Hálfdanardóttir, nemandi á 1. ári við skólann tók þátt í alþjóðlegri píanókeppni í Malmö í byrjun nóvember. Hún náði frábærum árangri og vann til 2. verðlauna í sínum aldursflokki. Dómnefndin var sammála því að píanóleikur hennar einkenndist af mikilli útgeislun og djúpri tilfinningu fyrir tónlistinni.

Skólinn óskar Ásgerði Söru til hamingju með þennan frábæra árangur.

18. nóv. 2022 : Eystrasaltskeppnin í stærðfræði

Eystrasaltskeppnin í stærðfræði fór fram dagana 10.-14. nóvember í Tromsø í Noregi. ​Verzlunarskólinn átti fulltrúa í keppninni í ár og var það Ragna María Sverrisdóttir, nemandi í 2X. Keppnin sem er haldin árlega er liðakeppni þar sem hver þjóð hefur fjórar og hálfa klukkustund til þess að leysa saman 20 dæmi. Í ár tóku 10 þjóðir þátt.

 

Keppendur fengu að fara í vettvangsferðir meðal annars á vísindasafnið í Tromsø og í norðurljósaskoðun. Á lokakvöldinu fóru keppendur með kláfi á veitingastað í um 420 metra hæð yfir sjávarmáli þar sem var glæsilegt útsýni yfir Tromsø.

Feðginin Hreimur og Embla tóku lagið

17. nóv. 2022 : Menningartengsl við Slóveníu og Portúgal

Vikuna 8.-15. nóvember tók 2-A á móti hópi nemenda frá Slóveníu og Portúgal í Erasmus+ verkefninu Cultural heritage connects. Nemendurnir unnu að ýmis konar verkefnum sem lúta að menningu landanna, móðurmálum og öðru skemmtilegu. Hópurinn fór hinn klassíska gullhring, skellti sér í Bláa lónið og fékk svo tækifæri til að fara á Vælið sem þeim fannst mögnuð upplifun. Hópurinn var svo kvaddur í flottri veislu þar sem nemendur okkar komu með gómsætar veitingar og Hreimur og dóttir hans Embla tóku lagið! Á vorönn verða svo fundir í hinum löndunum þar sem verkefnið heldur áfram. Nemendurnir og kennararnir  voru mjög ánægðir með dvölina á Íslandi sem lýsir sér einna best í orðum nemanda úr hópnum „Ég elskaði allt við að vera á Íslandi!“ 

16. nóv. 2022 : Jón Gnarr söng Völuspá á degi íslenskrar tungu

Jón Gnarr heimsótti Verzlunarskólann í dag til að ræða mikilvægi íslenskunnar við nemendur og starfsfólk. Hann benti á að allt hans starf síðustu ár hefði snúist um tungumálið en hann hefur til dæmis starfað sem höfundur, leikari, útvarpsmaður og skemmtikraftur.

Jón sagði íslenska tungumálið vera gert til þess að segja sögur og lagði áherslu á hve mikilvægt væri að leika sér með málið, teygja það og toga til að hafa gaman. Sem dæmi um það úr eigin starfi tók hann sketsa úr Fóstbræðrum og vaktaseríunum. Jón hélt því raunar fram að tungumál Ólafs Ragnars og Georgs úr vaktaseríunum væru ólíkar mállýskur sem kæmu sín úr hvorum kima samfélagsins og ættu sér fyrirmyndir í raunveruleikanum.

Að lokum hafði Jón nokkur orð um eddukvæðið Völuspá sem hann gjörþekkir eftir hafa gert um það lokaverkefni í Listaháskóla Íslands. Hann sagði hápunkt kvæðisins vísa beint til nútímans enda mætti túlka ragnarök sem afleiðingar lofslagsbreytinga.

Jón Gnarr endaði skemmtilega hugvekju sína með því að syngja erindi úr Völuspá af mikilli innlifun við mikla hrifningu viðstaddra.

11. nóv. 2022 : Nemendur hrifust af einleiknum Vertu úlfur í Þjóðleikhúsinu

Nemendur 1. bekkjar fjölmenntu á einleikinn Vertu úlfur í Þjóðleikhúsinu sl. þriðjudagskvöld. Var sýningin haldin sérstaklega fyrir nemendur skólans en samnefnd bók Héðins Unnsteinssonar er meðal námsefnis í íslensku á haustönn. Óþarfi er að fjölyrða um hversu mikið meistaraverk sýningin er en höfundur leikgerðar og leikstjóri er Unnur Ösp Stefánsdóttir.

Að sýningu lokinni ræddu þau Héðinn, Unnur Ösp og Björn Thors, aðalleikari sýningarinnar, við nemendur um tilurð verksins, hversu brýnt erindi efni það á við samfélagið - ekki síst ungt fólk- og hvernig það hefur breytt viðhorfum fólks til geðheilbrigðismála. Nemendur tóku virkan þátt í umræðum og ljóst að sýningin hafði mikil áhrif á þá.

Í bókinni lýsir höfundur glímu sinni við andleg veikindi, fordóma samfélagsins og það áfall að vera sviptur sjálfræði. Leikverkið hefur slegið aðsóknarmet en aldrei áður hefur einleikur verið sýndur jafn lengi og notið viðlíka velgengni og Vertu úlfur.

10. nóv. 2022 : Nemendur í Helsinki

Þessa vikuna eru átta 2. árs nemendur af viðskiptabraut ásamt kennurum í Helsinki í Finnlandi í verkefni á vegum Nord+. Verkefnið snýst um nýsköpun með sjálfbærni og græna orku að leiðarljósi. Nemendur heimsækja skóla og fyrirtæki og vinna með nemendum frá Svíþjóð og Finnlandi að kynningum um efnið auk þess að mynda tengsl og njóta samveru hvert við annað. Nemendur vinna í verkmenntaskólanum Prakticum og verslunarskólanum Business College of Helsinki. Hópurinn hefur heimsótt Puistukatu 4: a space for science and hope, sem býður aðstöðu til rannsókna, aðgerða og viðburða sem stuðla að

10. nóv. 2022 : Er þín fjölskylda NGK fjölskylda?

Við leitum að NGK fjölskyldum til að taka á móti nemendum bekkjarins í byrjun janúar. NGK nemandinn mun búa með fjölskyldunni í tæpa 6 mánuði eða á meðan hann stundar nám sitt í Versló. Með hverjum NGK nemanda fylgja 80.000 Ikr. á mánuði sem hugsaðar eru sem greiðsla fyrir gistingu og uppihald (gisting, matur, internet o.s.frv.).

Zvonka og Vika með Ármanni Halldórssyni, verkefnastjóra í alþjóðasamskiptum

7. nóv. 2022 : Kennarar frá Slóveníu í heimsókn

Fyrstu daga nóvembermánaðar hafa tveir kennarar frá Tolmin í Slóveníú, Zvonka Dalic Rink og Vika Perincic verið í heimsókn í Versló. Þær eru hér að kynna sér störf og kennsluhætti í tungumálum, einkum ensku og þriðja máli. Slíkar heimsóknir eru kallaðar á ensku „job shadowing“ og eru styrktar af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins. Verzlunarskólinn og Gimnazija Tolmin hafa átt farsælt samstarf um árabil og er von á hópi þaðan í nemendaskiptaverkefni 8. nóvember. 

2. nóv. 2022 : Nemendur í stjórnmálafræði heimsóttu Washington DC

Dagana 19.-24. október síðastliðinn lögðu 46 nemendur í stjórnmálafræði land undir fót ásamt nokkrum kennurum og héldu til Washington DC þar sem markmiðið var að kynnast betur bandarískum stjórnmálum auk þess að kynna sér sögu og menningu vestanhafs.

Bandaríkin tóku vel á móti okkur með glampandi sólskini og tæpum 20° hita alla dagana sem var kærkominn breyting frá íslenskri grámyglu og eins stafs hitatölum. Í rjómablíðu var því farið af stað fyrsta daginn í langan göngutúr um miðbæinn þar sem öll helstu minnismerki um styrjaldir, forseta og önnur fyrirmenni voru skoðuð. Í lokin var svo reynt að banka upp á hjá Joe Biden en voldugir verðir við hliðið staðhæfðu að enginn væri heima.

1. nóv. 2022 : Þróunarverkefni á 1. ári

Skólaþróunarverkefninu miðar vel áfram. Margar skemmtilegar hugmyndir hafa kviknað og gaman er að fylgjast með sköpunarkrafti nemenda. Nú keppast nemendur við að útfæra hugmyndir sínar að umbótum í samfélaginu. Gaman verður að sjá fjölbreyttar útfærslur á verkefninu í lok vikunnar.