29. jún. 2023 : Brautskráning Norður-Atlantshafsbekkjarins

Annar árgangur Norður-Atlantshafsbekkjarins lauk lokaári sínu í Sisimiut á Grænlandi með brautskráningu, þriðjudaginn 27. júní. Fjórir íslenskir nemendur voru meðal útskriftarnemenda; Elsa Lilly Hafþórsdóttir, Lív Höskuldsdóttir, Sandra Karen Daðadóttir og Thelma Dögg Hafliðadóttir. Þær stóðu sig með miklum ágætum og hafa verið verðugir fulltrúar Íslands í þessu einstaka samvinnuverkefni fjögurra skóla í jafnmörgum löndum. Við óskum þeim og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju.

22. jún. 2023 : Lok innritunar 2023

Innritun í Verzlunarskólann fyrir komandi skólaár er lokið. Alls bárust 742 umsóknir, 572 sem val 1 og 170 sem val 2.

Innritaðir voru 363 nemendur frá 58 grunnskólum víðs vegar af landinu.

Við val á nemendum var að öllu leyti stuðst við þau viðmið sem skólinn hefur sett sér varðandi inntöku nýnema. Horft var til námsmats úr grunnskóla og var bókstöfum varpað í tölustafi samkvæmt kvarða sem Menntamálastofnun hefur gefið út. Nánar er hægt að lesa um innritunarviðmið hér.

Þá var horft sérstaklega til jöfnun kynjahlutfalls meðal nýnema og þess gætt að hlutfall hvers kyns færi ekki yfir 60% innritaðra nemenda. Einnig var horft til þeirra umsækjenda sem ekki eru með íslensku sem móðurmál en í þeirra tilvikum var vægi íslenskueinkunnar einfalt en ekki tvöfalt vægi.

Hæsti stigafjöldi sem hægt er að fá samkvæmt reiknireglu skólans er 24 stig eða A í öllum greinum sem horft er til. 84 umsækjendur voru með A í öllu eða 23% innritaðra. 297 umsækjendur voru með 23 stig eða hærra og fengu þeir allir umsókn sína samþykkta, annaðhvort brautarval 1 eða brautarval 2. Hlutfall innritaðra með 23 stig eða hærra er 82% í ár sem er aðeins hærra hlutfall heldur en í innritun 2022 en þá var hlutfallið 74%.

Skipting milli brauta er að einn bekkur verður á alþjóðabraut og einn bekkur á nýsköpunar- og listabraut. Sex bekkir á náttúrufræðibraut, fjórir þeirra á líffræðilínu og tveir á eðlisfræðilínu. Sex bekkir á viðskiptabraut; þrír á hagfræðilínu, einn á stafrænni viðskiptalínu og tveir á viðskiptalínu.

Nemendur voru teknir inn á brautir og línur og er þeim raðað í bekki út frá þeim forsendum sem og tungumálavali. Öll sæti í öllum bekkjum eru fullskipuð og því er ekki hægt að taka á móti óskum nýnema um að skipta um bekk.

Ef einhver afþakkar pláss verður skoðað í haust hvort tekinn verði inn nýr nemandi. Nemendur sem fengu ekki umsókn sína samþykkta við skólann geta óskað eftir því að fara á biðlista ef pláss losnar. Skráning á biðlista fer fram í gegnum netfangið verslo@verslo.is

Starfsfólk Verzlunarskólans hlakkar til að taka á móti nýjum nemendum á nýnemakynningu skólans, föstudaginn 18. ágúst. Nánari upplýsingar um tímasetningu koma hingað inn á síðuna í byrjun ágúst.

Bestu óskir um gleðilegt sumar!

15. jún. 2023 : Sumarleyfi

Nú líður senn að sumarlokun skrifstofu Verzlunarskólans. Endurtektarprófum er lokið og nemendur hafa fengið einkunn birta á INNU.

Þeir nemendur sem ekki náðu markmiðum sínum í endurtektarprófunum eða gátu ekki þreytt endurtektarpróf hafa tækifæri til að ljúka áföngum vetrarins í fjarnámi skólans í sumar en sumarönn er þegar hafin.

Á heimasíðu skólans er hægt að nálgast próftöflu sumarannar .

Þá viljum við benda á að Verzlunarskólinn er bekkjarskóli og nemendur fylgjast að í námi við skólann. Því er ekki heimilt að nemendur taki einstaka áfanga í fjarnámi á sumrin sem eru skilgreindir á braut viðkomandi nemanda til að fækka áföngum á komandi skólaári.  

Við minnum einnig á 5. kafla í skólareglum skólans hvað varðar námsmat og þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að færast upp á næsta ár.

Kennsla haustannar hefst mánudaginn 21. ágúst samkvæmt stundatöflu. Nýnemar koma í skólann föstudaginn 18. ágúst og fá kynningu á skólanum. Skóladagatal næsta skólaárs er aðgengilegt hér á síðunni.

2. jún. 2023 : Þjónustufulltrúi fasteignar

Verzlunarskóli Íslands leitar að starfsmanni í fasteignaumsjón skólans. Um er að ræða lifandi og fjölbreytt starf þar sem margþætt reynsla nýtist vel. Vinnutími er frá klukkan 14:00 til 20:00 alla virka daga, styttra á föstudögum

2. jún. 2023 : Skertur opnunartími 5. 6. og 7. júní

Dagana 5. 6. og 7. júní verður opnunartími skólans styttri vegna námskeiða starfsmanna. Opið verður frá klukkan 9:00-13:00. 

8. júní tekur svo við hefðbundinn opnunartími frá 8:15-15:00.