Andlát
Steinunn I. Stefánsdóttir bókasafnsfræðingur er látin. Hún lést 12. nóvember síðastliðin 75 ára að aldri. Árið 1985 var Steinunn ráðin til starfa við Verzlunarskóla Íslands og fékk það hlutverk að byggja upp framtíðarbókasafn skólans. Henni tókst vel til verka og var mikil ánægja með safnið en fram að þessu höfðu nemendur viðhaft ýmsar tilraunir til að koma á bókasafni við skólann. Árið 2004 var síðan nýtt bókasafn tekið í notkun þar sem tæplega 400 fermetra viðbygging var byggð ofan á gamla safnið. Steinunn sá einnig um uppbyggingu þess safns og tókst afar vel til. Bókasafnið átti hug hennar allan og naut hún mikilla vinsælda meðal nemenda og starfsfólks. Steinunn kenndi jafnframt upplýsingatækni við skólann en hér var um brautryðjendastarf að ræða þar sem upplýsingatækni hafði ekki verið áður kennd við framhaldsskóla á Íslandi.
Verzlunarskóli Íslands vottar fjölskyldu Steinunnar samúð sína og þakkar henni vel unnin störf og þann hlýhug sem hún sýndi skólanum alla tíð.