29. maí 2021

Brautskráning 2021

Brautskráning stúdenta frá Verzlunarskólanum fór fram laugardaginn 29. maí við hátíðlega athöfn í hátíðarsal skólans. Ingi Ólafsson, skólastjóri, hefur starfað við skólann í 32 ár og verið skólastjóri í 14 ár og var þetta hans síðasta útskrift þar sem hann mun senn láta af störfum. Eins og fram kom í ræðu hans fór hefðbundið skólahald verulega úr skorðum á árinu 2020 og þurftu nemendur að vera stóran hluta ársins heima á meðan kennslan fór fram í gegnum netið. Sama má segja um brautskráninguna en ekki er hægt að segja að um hefðbundna útskrift hafi verið um að ræða. Ingi stóð einn uppi á sviði í hátíðarsal skólans og talaði til nemenda og gesta í gegnum upptökuvélar en vegna fjöldatakmarkana var brautskráningin í beinni útsendingu. Útskriftarnemendur sátu flestir í sínum heimastofum í skólanum og fylgdust með brautskráningunni á skjám og biðu eftir því að vera kallaðir inn til að taka á móti skírteinum sínum. Foreldrar fengu að koma í skólann þegar komið var að brautskráningu bekkjar þeirra barns.

Að þessu sinni brautskráðust 322 nýstúdentar frá Verzlunarskólanum, 320 úr dagskóla og 2 úr fjarnámi. Útskriftarhópurinn samanstóð af 202 stúlkum og 120 piltum.

Dúx skólans var Elísa Sverrisdóttir með I. ágætiseinkunn; 9,8. Hlaut hún bókagjafir og námsstyrk að upphæð 500.000 en styrkurinn kemur úr VÍ 100 sjóðnum sem var stofnaður í tilefni aldarafmælis skólans.

Semidúxinn var Kolbrún Sara Haraldsdóttir með I. ágætiseinkunn 9,7 og hlaut hún bókagjöf og námsstyrk úr aldarafmælissjóðnum að upphæð 300.000.

Aðrir nemendur með I. ágætiseinkunn 9,4 og yfir fengu einnig bókagjafir og námsstyrk að upphæð 150.000 kr.  úr aldarafmælissjóðnum og voru það eftirfarandi nemendur:

Nafn Bekkur Einkunn
Sigurbjörg Guðmundsdóttir 3-A 9,6
Axel Máni Guðbjörnsson 3-H 9,5
Hanna Mae Isorena Guðjónsdóttir 3-Y 9,5
Auðun Bergsson 3-X 9,4
Berglind Magnúsdóttir 3-J 9,4
Stefán Þór Sigurðsson 3-B 9,4

VÍ 100 - aldarafmælissjóðurinn var stofnaður af fyrrverandi nemendum skólans sem lögðu fé í sjóðinn og í skipulagsskrá fyrir sjóðinn segir m.a. að árlega skuli hann styrkja valda nemendur með fjárframlagi, þegar þeir flytjast milli bekkja eða ljúka stúdentsprófi. Skal við það miðað að styrkþegar hafi sýnt afburða námsárangur eða lagt verulega af mörkum til skólastarfsins með þátttöku í félagslífi o.þ.h. Sjóðstjórn komst að þeirri niðurstöðu að veita meðal annars verðlaun fyrir þátttöku í félagslífi skólans og var það Gunnlaugur Eiður Björgvinsson í 3-H sem hlaut 100.000 króna styrk úr sjóðnum fyrir þátttöku sína í félagslífi nemenda. Gunnlaugur kom að flest öllum viðburðum í skólanum þegar þörf var á tæknimanni en þetta skólaárið þurfti oft á tíðum að streyma hina ýmsu viðburði vegna fjöldatakmarkana. Jafnframt voru veitt verðlaun fyrir bestan námsárangur að loknu 1. og 2. ári og fengu þeir 100.000 króna styrk úr sjóðnum. Styrkþegarnir voru tveir: 

Nafn Bekkur Einkunn

Magnús Kristinsson

1-U 9,81
 Helgi Hrannar Briem  2-I 9,75

Skólinn óskar öllum brautskráðum nemendum skólans innilega til hamingju með áfangann og velfarnaðar í framtíðinni.

Fréttasafn