18. nóv. 2017

Dagur íslenskrar tungu – 16. nóvember 2017

Í tilefni af Degi íslenskrar tungu unnu nemendur fjölbreytt verkefni tengd Jónasi Hallgrímssyni í íslenskutímum.  Nemendur á 1. ári sömdu til að mynda ljóð úr nýyrðum Jónasar til heiðurs þjóðskáldinu.  Á öðru ári glímdu nemendur við smásagnagerð eftir að hafa lesið kvæðið Ferðalok sem veitti þeim innblástur. Efri bekkingar fóru í stafsetningarkeppni og spreyttu sig á orðum eins og „dýjaveisa“, „ýfrugur“ og „glýpt“.

Himingeimur

Fjaðurmagnaður, fluggáfaður fuglafræðingur
fann fýl í næturkyrrðinni
með líffærin flaksandi,
hann var drepinn.

Undir tunglmyrkvanum og kvöldbjarmanum
kvöldflóðið tók hryggdýrið
eins og háðsk hagamús
í leit að lindýri.

Axel, Birgir, Silvía og Sunneva 1-R

Alheimurinn

Heimurinn, heimili okkar allra.
Himingeimurinn sem er endalaus
almyrkvi, ríkir yfir jörðu.
Aðdráttaraflið dregur í sig ljós,
ljós lífsins.
Brekkusóleyjar spretta upp í hinu fagra dalalífi.

Hagamúsin er einmana,
hún finnur ekki fyrir sólnándinni eins og hún man eftir henni.
Vetrarkuldinn umvefur dalinn
nú er músin kvalin.

Fábrotinn er maðurinn, er hann svífur líkt og haförn um allt
og verndar dalinn sinn,
þrælsterkur berst hann
við allt sem ógnar honum.

Næturkyrrðin hellist yfir þorpið
líkt og stormsveipur.

Rætur brekkusóleyjarinnar gefa samt ekki eftir.

 Arnbjörg, Elísa, Ester, Svava og Sólon 1-A.

Fréttasafn