2. nóv. 2022

Nemendur í stjórnmálafræði heimsóttu Washington DC

Dagana 19.-24. október síðastliðinn lögðu 46 nemendur í stjórnmálafræði land undir fót ásamt nokkrum kennurum og héldu til Washington DC þar sem markmiðið var að kynnast betur bandarískum stjórnmálum auk þess að kynna sér sögu og menningu vestanhafs.

Bandaríkin tóku vel á móti okkur með glampandi sólskini og tæpum 20° hita alla dagana sem var kærkominn breyting frá íslenskri grámyglu og eins stafs hitatölum. Í rjómablíðu var því farið af stað fyrsta daginn í langan göngutúr um miðbæinn þar sem öll helstu minnismerki um styrjaldir, forseta og önnur fyrirmenni voru skoðuð. Í lokin var svo reynt að banka upp á hjá Joe Biden en voldugir verðir við hliðið staðhæfðu að enginn væri heima.

Á öðrum degi ferðar var aftur haldið í bæinn og að þessu sinni hélt hópurinn í skoðunarferð um þinghúsið auk þess að kynna sér Jefferson bókasafnið og líta við í hinum umdeilda hæstarétti. Seinni partinn var svo slegið á léttari strengi og fór stærstur hluti hópsins á æsispennandi körfuboltaleik milli Galdramanna höfuðborgarinnar og nautanna frá Chicago þar sem heimamenn höfðu betur í æsispennandi leik.

Á þriðja degi var nóg komið af útiveru í bili svo hópurinn skellti sér á söfn. Í morgunsárið var kíkt á þjóðminjasafnið og eftir staðgóðan hádegismat var farið á safn um sögu og menningu blökkumanna þar í landi, hvar nemendur fengu m.a. stutta danskennslu.

Þá var komið að menningarreisu í eitt helsta vé bandarískrar þjóðarsálar og á sunnudeginum hélt stór hópur á FedEx Field hvar boðið var upp á amerískan fótbolta af bestu gerð, Pakkararnir frá Grænaflóa voru mættir til að etja kappi við Herforingjana í höfuðborginni. Reyndist það hin besta skemmtun.

Á lokadegi ferðarinnar skoðaði hópurinn sig um í þjóðargrafreitnum í Arlington, sáu m.a. vaktaskiptin við leiði óþekkta hermannsins auk þess að heimsækja leiði ýmissa stórmenna sögunnar á borð við JFK og Ruth Bader Ginsburg. Hæstánægð með nokkra góða og lærdómsríka daga vestanhafs var svo haldið aftur heim á klakann. 

Fréttasafn