7. nóv. 2022

Kennarar frá Slóveníu í heimsókn

  • Zvonka og Vika með Ármanni Halldórssyni, verkefnastjóra í alþjóðasamskiptum

Fyrstu daga nóvembermánaðar hafa tveir kennarar frá Tolmin í Slóveníú, Zvonka Dalic Rink og Vika Perincic verið í heimsókn í Versló. Þær eru hér að kynna sér störf og kennsluhætti í tungumálum, einkum ensku og þriðja máli. Slíkar heimsóknir eru kallaðar á ensku „job shadowing“ og eru styrktar af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins. Verzlunarskólinn og Gimnazija Tolmin hafa átt farsælt samstarf um árabil og er von á hópi þaðan í nemendaskiptaverkefni 8. nóvember. 

Zvonka og Vika eru mjög ánægðar með heimsóknina,  Zvona segir „ég er mjög glöð að fá tækifæri til að sjá hvernig skóli svipaður okkar virkar á Íslandi og ég mun fara heim með fullt af nýjum hugmyndum,“ og Vika bætir við „það hefur verið tekið mjög vel á móti okkur, heimsóknin vel skipulögð og möttökurnar frábærar – og við höfum upplifað fjölbreyttar og frumlegar kennslustundir.“ Heimsóknir af þessu tagi eru mikilvægur hluti alþjóðastarfs og munu kennarar Verzlunarskólans leggja land undir fót á næstu misserum með það að markmiði að gera góðan skóla enn betri.  

Fréttasafn