01.10.2024 Er fjölskyldan þín NGK fjölskylda? Norður-Atlantshafsbekkurinn (Nord-Atlantisk gymnasiumklasse), NGK, er væntanlegur í Verzló í byrjun árs 2025. Nemendur í NGK mynda bekk sem á þremur árum fær bæði faglegt og menningarlegt framlag frá fjórum löndum. Að auki fá þeir aðgang að einstakri námsbraut sem inniheldur meðal annars líftækni, stærðfræði og nám um málefni norðurslóða. Kynntu þér NGK frekar og skoðaðu bæklinginn. Bekkurinn stundar nám sitt á þremur árum í fjórum löndum. Fyrsti hópurinn í NGK hóf nám haustið 2019 í Danmörku. Bekkurinn, 2-N, er núna í Færeyjum og er von á þeim til Íslands í janúar þar sem hópurinn mun stunda nám í Verzló á vorönn 2025. Núna eru þrír bekkir í gangi, einn í Danmörku, einn í Grænlandi og svo bekkurinn sem er í Færeyjum á leið til Íslands í janúar. Við leitum að NGK fjölskyldum til að taka á móti nemendum bekkjarins í byrjun janúar. NGK nemandinn mun búa með fjölskyldunni í tæpa 6 mánuði eða á meðan hann stundar nám sitt í Verzló. Með hverjum NGK nemanda fylgja 100.000 kr. á mánuði sem hugsaðar eru sem greiðsla fyrir gistingu og uppihald (gisting, matur, internet o.s.frv.). Margar fjölskyldur hafa myndað ný tengsl við granna okkar í vestri og austri – þetta verður að teljast einstakt tækifæri. Jafnframt er hér gott tækifæri til að rifja upp dönskuna, en námið er á dönsku – þó vitaskuld tali þau öll fína ensku. Hægt er að skrá sig til leiks með því að fylla út þessa umsókn: Umsókn Nánari upplýsingar veitir verkefnastjóri alþjóðaverkefna, Ármann Halldórsson, armann@verslo.is