Ferð til Rennes

Dagana 20. til 26. september fór 24 manna nemendahópur á 2. ári, ásamt tveimur kennurum til borgarinnar Rennes sem er á Bretagneskaga í Frakklandi.

Nemendurnir, sem allir læra frönsku sem þriðja mál, dvöldu hjá frönskum fjölskyldum og fengu með því einstaka innsýn í franska menningu, siði og daglegt líf. Auk þess að sitja í tímum í franska menntaskólanum og eiga í samskiptum við franska nemendur fór hópurinn í nokkrar skoðunarferðir saman. Ein þeirra var um borgina Rennes sem er bæði falleg og sögurík borg með yfir 2000 ára sögu.
Þá var einnig farið í ferð til Mont Saint Michel klaustursins sem er á heimsminjaskrá UNESCO og er einhver athyglisverðasti staður Frakklands. Klaustrið, sem er frá fyrri hluta 8. aldar, er staðsett á litilli eyju í Normandy, rúmlega einn kílómetra frá norðurströnd Frakklands.

Jafnframt fór hópurinn í göngu um Cancale sem er vinsæll útivistarstaður og í heimsókn til borgarinnar Saint-Malo við Ermasund,stærstu hafnarborgar á norðurströnd Bretagneskaga. Saint-Malo var heimahöfn rannsóknarskipsins Pourquoi Pas? sem fórst við Mýrar í Borgarfirði 16. september 1936. Munur stórstraumsflóðs og fjöru er óvíða meiri í heiminum eða um 14 metrar og nutu nemendur sín vel á ströndinni í blíðskapar veðri þar sem farið var í kappleiki við frönsku ungmennin.

Nemendur voru sammála um það að álag við að taka þátt í svona verkefni væri töluvert en það væri þess virði þar sem svona heimsóknir eru mjög lærdómsríkar og gefandi. Frönsku ungmennin munu svo endurgjalda heimsóknina með komu sinni hingað til lands í mars 2026.

Aðrar fréttir