Fyrirkomulag kennslu haustið 2020
Nú eru línur teknar að skýrast varðandi fyrirkomulag kennslu við upphaf haustannar 2020. Niðurstaðan er sérstök stundaskrá sem gerir ráð fyrir blandaðri kennslu. Annars vegar verður staðbundin kennsla í skólanum þar sem nemendur mæta í tíma hjá kennara í hverju fagi einu sinni í viku og hins vegar heimakennsla á móti. Stundataflan verður aðgengileg á INNU á mánudaginn og þá geta nemendur betur glöggvað sig á fyrirkomulaginu.
Til þess að framkvæmdin gangi eftir þurfa nemendur að taka á sig töluverða ábyrgð hvað sóttvarnir varðar og hlýða fyrirmælum. Skólanum hefur verið skipt upp í 7 hólf og þurfa nemendur að nota mismunandi innganga til þess fara í hvert hólf. Í hverju hólfi verða aldrei fleiri en tveir bekkir (ca. 50 nem.) og mega nemendur ekki fara yfir í önnur hólf. Hverjum bekk er svo skipt upp í tvær nærliggjandi stofur með viðeigandi uppröðun borða. Í hverri stofu verða um 14 nemendur.
Með þessu móti getur einn árgangur í einu mætt í staðbundna kennslu. Skólinn verður tvísetinn og mætir einungis einn árgangur í einu, ýmist fyrir eða eftir hádegi.
Athugið vegna undirbúningsvinnu við nýtt fyrirkomulag kennslu verða eftirfarandi breytingar:
Nýnemakynning fer fram þriðjudaginn 18. ágúst og mun taka mið af samkomutakmörkunum. Nemendur fá frekari upplýsingar sendar í tölvupósti á skólanetfangið sitt á mánudaginn.
Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá miðvikudaginn 19. ágúst hjá öllum árgöngum.