27. okt. 2022

Ítalíuferð

Þann 18. október héldu 76 hressir nemendur ásamt kennurum í listasöguferð til Ítalíu. Ferðin hófst í Flórens þar sem nemendur sáu meðal annars Davíðsstyttu Micaelangelos, mörg af stórvirkjum endurreisnarinnar á söfnunum kenndum við Uffizi og Bargello, og nutu útsýnisins yfir borgina úr hvelfingu Brunelleschis á Santa Maria del Fiore. Eftir þrjá daga í Flórens var haldið til Rómar, en þar hófust leikar með ferð í Vatíkanið þar sem bar að líta Páfahöllina, Sixtínsku kapelluna og Péturskirkjuna. Eftir það gekk hópurinn um Róm og sá Panþeon, Trevi-brunninn og aðra merka staði sem vert er að skoða í borginni eilífu. Síðasta daginn í Róm var haldið í Borghese-safnið, í Colosseum og um kvöldið fór hluti hópsins í pílagrímsför á Stadio Olympico, þar sem heimamenn í Roma létu í lægra haldi fyrir sterku liði Napoli í 1-0 tapi. Síðasta sólarhring ferðarinnar var varið í Feneyjum, þar sem hluti hópsins kíkti í Hertogahöllina á meðan aðrir kusu frekar að kynnast borginni með því að versla og sigla um kanala á gondólum. Samhliða þessu naut hópurinn alls þess besta sem Ítalía hefur upp á að bjóða, borðaði góðan mat og labbaði yfir 100 kílómetra, allt í blíðskaparveðri. 

Fréttasafn