16. nóv. 2022

Jón Gnarr söng Völuspá á degi íslenskrar tungu

Jón Gnarr heimsótti Verzlunarskólann í dag til að ræða mikilvægi íslenskunnar við nemendur og starfsfólk. Hann benti á að allt hans starf síðustu ár hefði snúist um tungumálið en hann hefur til dæmis starfað sem höfundur, leikari, útvarpsmaður og skemmtikraftur.

Jón sagði íslenska tungumálið vera gert til þess að segja sögur og lagði áherslu á hve mikilvægt væri að leika sér með málið, teygja það og toga til að hafa gaman. Sem dæmi um það úr eigin starfi tók hann sketsa úr Fóstbræðrum og vaktaseríunum. Jón hélt því raunar fram að tungumál Ólafs Ragnars og Georgs úr vaktaseríunum væru ólíkar mállýskur sem kæmu sín úr hvorum kima samfélagsins og ættu sér fyrirmyndir í raunveruleikanum.

Að lokum hafði Jón nokkur orð um eddukvæðið Völuspá sem hann gjörþekkir eftir hafa gert um það lokaverkefni í Listaháskóla Íslands. Hann sagði hápunkt kvæðisins vísa beint til nútímans enda mætti túlka ragnarök sem afleiðingar lofslagsbreytinga.

Jón Gnarr endaði skemmtilega hugvekju sína með því að syngja erindi úr Völuspá af mikilli innlifun við mikla hrifningu viðstaddra.

Fréttasafn