17. okt. 2020

Miðannarmat

Opnað hefur verið fyrir miðannarmat yfirstandandi annar á INNU. Foreldrar og forráðamenn nemenda undir 18 ára aldri geta nálgast niðurstöður matsins með því að skrá sig í INNU en foreldrar og forráðamenn lögráða nemenda verða að fá aðgang í gegnum börnin sín. Skólinn veitir ekki slíkan aðgang.

Við hvetjum ykkur, nemendur og forráðamenn, til þess að skoða matið saman og nota niðurstöður þess til að eiga samræður um námið sem af er önninni og væntinga til lokamats í hverjum áfanga.

Vert er að taka fram að mat þessarar annar er litað af þeim aðstæðum sem nemendur jafnt sem kennarar starfa í. Kennarar hitta nemendur sína ekki á hefðbundinn hátt í skólastofunni og því er sá fyrirvari settur í matið að tengsl kennara og nemenda eru ekki þau sömu og í venjulegu árferði.

Námsráðgjafar skólans munu í framhaldinu af miðannarmatinu heyra sérstaklega í þeim nemendum sem ekki koma vel út úr matinu og ræða við þá um námsframvindu og hvernig megi bæta hana.

Ekki hafa verið tilkynntar neinar breytingar á sóttvarnarreglum sem gera skólanum kleift að hefja staðkennslu aftur. Því verður kennsla næstu viku með sama fyrirkomulagi og verið hefur síðan 5. október.

Vetrarfrí skólans verður föstudaginn 23. október og mánudaginn 26. október. Við vonum að dagarnir nýtist vel til að safna kröftum fyrir seinni hluta annarinnar. Þriðjudaginn 27. október verður skipulagsdagur skólans sem þýðir að kennsla fellur niður en nemendur fá daginn til þess að undirbúa sig og vinna í þeim verkefnum sem framundan eru.

Kæru nemendur. Þið standið ykkur vel á þessum erfiðu tímum. Haldið áfram á sömu braut. Samstaða okkar allra hefur sjaldan eða aldrei skipt jafn miklu máli.

Fréttasafn