Nemendur hrifust af einleiknum Vertu úlfur í Þjóðleikhúsinu
Nemendur 1. bekkjar fjölmenntu á einleikinn Vertu úlfur í Þjóðleikhúsinu sl. þriðjudagskvöld. Var sýningin haldin sérstaklega fyrir nemendur skólans en samnefnd bók Héðins Unnsteinssonar er meðal námsefnis í íslensku á haustönn. Óþarfi er að fjölyrða um hversu mikið meistaraverk sýningin er en höfundur leikgerðar og leikstjóri er Unnur Ösp Stefánsdóttir.
Að sýningu lokinni ræddu þau Héðinn, Unnur Ösp og Björn Thors, aðalleikari sýningarinnar, við nemendur um tilurð verksins, hversu brýnt erindi efni það á við samfélagið - ekki síst ungt fólk- og hvernig það hefur breytt viðhorfum fólks til geðheilbrigðismála. Nemendur tóku virkan þátt í umræðum og ljóst að sýningin hafði mikil áhrif á þá.
Í bókinni lýsir höfundur glímu sinni við andleg veikindi, fordóma samfélagsins og það áfall að vera sviptur sjálfræði. Leikverkið hefur slegið aðsóknarmet en aldrei áður hefur einleikur verið sýndur jafn lengi og notið viðlíka velgengni og Vertu úlfur.