10. nóv. 2022

Nemendur í Helsinki

Þessa vikuna eru átta 2. árs nemendur af viðskiptabraut ásamt kennurum í Helsinki í Finnlandi í verkefni á vegum Nord+. Verkefnið snýst um nýsköpun með sjálfbærni og græna orku að leiðarljósi. Nemendur heimsækja skóla og fyrirtæki og vinna með nemendum frá Svíþjóð og Finnlandi að kynningum um efnið auk þess að mynda tengsl og njóta samveru hvert við annað. Nemendur vinna í verkmenntaskólanum Prakticum og verslunarskólanum Business College of Helsinki. Hópurinn hefur heimsótt Puistukatu 4: a space for science and hope, sem býður aðstöðu til rannsókna, aðgerða og viðburða sem stuðla að samvinnu og sjálfbærni og tölvuleikjaframleiðandann Supercell sem vinnur markvisst að sjálfbærnimarkmiðum með ýmsum hætti. Þar að auki mun hann heimsækja Sitra: nýsköpunarmiðstöð og skoða Pop-up College sem er verkefni þar sem nemendur BC vinna að verkefnum með verslunum í nágrenni skólans. Í ferðinni vinna nemendur í blönduðum hópum þar sem þau ræða og draga lærdóm af því sem fjallað er um í kynningum og heimsóknum. Gestgjafar hafa skipulagt skemmtilega dagskrá fyrir nemendur á kvöldin og hafa þeir m.a. farið í lazertag og keilu og munu skella sér í sjósund og gufu því enginn kemur nú til Finnlands án þess að fara í gufubað og ekki má gleyma að bragða á finnska þjóðarréttinum Big Mac. Nemendur okkar standa sig frábærlega og eru landi og skóla til sóma að öllu leiti. 

Fréttasafn