07.02.2025 Nemendur njóta myndlistar Hallgríms Helgasonar Nemendur Verzlunarskólans heimsóttu Kjarvalsstaði í vikunni til að njóta málverkasýningar Hallgríms Helgasonar sem ber heitið Usli. Á sýningunni er „sjónum beint að höfundarverki Hallgríms. Í verkum sínum segir Hallgrímur sögur sem hafa persónulega skírskotun um leið og þær endurspegla tíðaranda eða eru viðbragð við atburðum veraldarsögunnar“, eins og segir í sýningarskrá. Heimsóknin tengist annars vegar lestri 3. bekkinga á skáldævisögu Hallgríms, Sjóveikur í München, þar sem hann segir frá einum vetri í lífi sínu er hann stundaði myndlistarnám í borginni á árunum 1980-1981, en hins vegar námi 2. bekkjar í Menningu og listum. Í verkum sínum leitast Hallgrímur jafnan við að ögra ríkjandi hefðum og viðhorfum hvort sem um er að ræða ljóðlist, sagnalist eða myndlist. Verkin á sýningunni vöktu upp ýmsar spurningar og vangaveltur meðal nemenda um ástand heimsmála, stríðsrekstur, stöðu og eðli feðraveldisins auk pælinga um stöðu og hlutverk listamanna í nútímaþjóðfélagi. Nemendur á öðru ári Nýsköpunar- og listabrautar hittu Hallgrím á sýningunni og höfðu mjög gaman af Skeggrætt um stöðu feðraveldisins Nemendur 3-I við hið sögufræga málverk Guð á Sæbrautinni eftir Hallgrím Helgason