29. sep. 2009

Danskir verslunarskólanemendur í heimsókn

Undanfarin ár hafa Verzlunarskólinn og Århus Købmandsskole unnið að samstarfsverkefni í formi nemendaskipta. Hefur bekkur frá Århus komið að hausti ár hvert til Íslands og nemendur úr Versló hafa síðan endurgoldið heimsóknina að vori. Þetta skólaár tekur 31 nemandi í fjórða bekk þátt í þessu verkefni á vegum Verzlunarskólans. Þeir eru gestgjafar eins Dana í viku og síðan gestir á heimili Danans aðra viku á vori komandi. Hefur þetta verkefni alltaf tekist vel og hafa nemendur skólans verið skólanum til sóma bæði sem gestgjafar og sem gestir í erlendu landi.

Að þessu sinni verða dönsku krakkarnir hér á landi vikuna 27. september til 3.október ásamt tveimur kennurum sínum. Munu þeir m.a. heimsækja listasöfn, fá fyrirlestur um hálendi Íslands, kynnast lítillega máli, menningu og sögu landsins og ferðast til Þingvalla, Gullfoss, Geysis og á Reykjanesið með viðkomu í Bláa Lóninu. Verzlunarskólinn býður Danina velkomna og vonar að dvölin hér verði ánægjuleg.

Fréttasafn