Klimaforandring i Norden
Fjórir nemendur úr Verzlunarskóla Íslands tóku þátt í seminari sem var haldið í Osló 6. -12. nóvember 2009. Nemendur voru valdir út frá kunnáttu þeirra í norrænum málum og voru það Baldur Jón Gústafsson, Jóhanna Guðrún Sigurðardóttir, Kolbeinn Elí Pétursson og Sæunn Rut Sævarsdóttir sem voru valin til þátttöku þetta árið, en Baldur, Jóhanna og Kolbeinn tala öll góða dönsku (hafa búið í Danmörku í 2-4 ár) og Sæunn talar sænsku (bjó í Svíþjóð í 4 ár). Samstarfsskólar voru; Oslo Handelsgymnasium, Skien vidergående skole en þessir tveir voru gestgjafar okkar í ár, Practicum í Helsinki, Businesscollege Helsinki, Utbilding Stockholm, Handilsskúli Føroya, Niels Brocks Handelsgymnasium København og Verzlunarskóli Íslands.
Nemendur unnu bæði kynningu um sig sjálf og bjuggu einnig til stuttmynd um bæinn sinn og skólann. Aðalverkefnið var svo að búa til fyrirlestur um „Veðurfarsbreytingar í Norðri“ og einbeita sér að heimalandi sínu. Skoðaðar voru þær veðurfarsbreytingar sem hafa orðið síðustu áratugina og hvað framtíðin getur borið í skauti sér. Einnig veltu þau fyrir sér úrræðum og munu þau skila af sér ályktun sem við fáum vonandi að kynna fyrir umhverfisráðherra.
Ingi Ólafsson skólastjóri og Þórhalla Arnardóttir kennari fóru með hópnum og voru þau sammála um að þau hafi verið skóla og landi til sóma. Nemendur voru sjálfir einnig mjög ánægðir með ferðina og hafa nú styrkt tengslanet sitt.