Alþjóðasamskipti
Næstu daga verða margir nemendur Verzlunarskólans á faraldsfæti en þá fara þrír hópar í heimsóknir til annarra skóla í Evrópu.
Spænskunemendur í 4.B fara í námsferð til Spánar. Þau munu heimsækja IES Antonio Machado, skólann í Alcalá de Henares sem er í þrjátíu kílómetra fjarlægð frá Madrid. Námsferð þessi er liður í Evrópuverkefninu,”How´s life over there?” sem er hluti af rafrænu sambandi skóla í eTwinning. Í september næstkomandi munu spænsku nemendurnir endurgjalda heimsóknina.
30 nemendur í 4.bekk munu síðan vera í Århus í eina viku en undanfarin ár hafa Verzlunarskólinn og Århus Købmandsskole unnið að samstarfsverkefni í formi nemendaskipta. Hefur bekkur frá Århus komið að hausti ár hvert til Íslands og nemendur úr Versló hafa síðan endurgoldið heimsóknina að vori.
Nemendur í 5 – A og 5 – J munu dvelja í Frakklandi þessa sömu viku. Þau dvelja í París og Chartres þar sem þau endurgjalda heimsókn franskra nemenda frá því í haust. Þau munu heimsækja Lycée Fulbert í Chartres og kynnast þar frönskum menntaskóla og frönsku fjölskyldulífi. Einnig munu þau skoða ýmsa merka staði í París og Versalakastala svo eitthvað sé nefnt.
Með nemendum fara 6 kennarar skólans.
Verzlunarskólinn óskar þeim öllum góðrar ferðar og vonar að dvölin verði ánægjuleg og lærdómsrík.