25. maí 2010

Innritun 2010 - 2011

Nemendur sem sækja um skólavist á 1. ári eiga að gera það rafrænt í gegnum upplýsingakerfi framhaldsskólanna á Menntagatt.is. Nemendur sem koma erlendis frá, eða af einhverjum öðrum ástæðum hafa ekki lokið grunnskóla á Íslandi, þurfa að hafa samband við skólann (yfirkennara eða áfangastjóra).

Nemendur sem sækja um skólavist á 2., 3. eða 4. ári skulu skila inn umsóknum á skrifstofu skólans. Krækjur á umsóknareyðublaðið er að finna hér að neðan. Þeir nemendur þurfa einnig að hafa samband við yfirkennara eða áfangastjóra.

·  Umsókn nemenda úr öðrum framhaldsskólum á Word formi

·  Umsókn nemenda úr öðrum framhaldsskólum á Pdf formi

Innritun fer að þessu sinni fram í tvennu lagi. Nýnemar sækja fyrst um dagana 12. – 16. apríl og velja þá einn skóla og annan til vara. Umsóknir verða ekki afgreiddar fyrr en einkunnir nemenda liggja fyrir að loknum skólaslitum. Nemendum gefst þá tækifæri til að endurskoða umsóknir sínar dagana 7. – 11. júní. Stefnt er að því að svör við umsóknum verði póstlögð fyrir 16. júní 2010.

308 nemendur verða innritaðir í 3. bekk VÍ (1. námsár) með svofelldum hætti:

1.     Fyrst verða afgreiddar umsóknir þeirra sem koma erlendis frá eða luku grunnskólaprófi 2009 eða fyrr.

2.     Aðrar umsóknir verða afgreiddar eftir þeirri röð sem meðaltal skólaeinkunna í fjórum greinum segir til um. Greinarnar eru: íslenska, stærðfræði og tvær til viðbótar, danska (eða annað Norðurlandamál), enska, náttúrufræði eða samfélagsfræði. Nemendur verða að hafa náð að lágmarki  6,0 í einkunn í hverri grein. Bent skal á að nám við Verzlunarskólann er kröfuhart og reynslan sýnir að nemendum með einkunn undir 7,0 í íslensku og stærðfræði hefur ekki vegnað vel í skólanum.

Þá er reiknað með að ákveðinn fjöldi nemenda verði tekinn inn á grundvelli annarra þátta. Þar verður m.a. litið til þess úr hvaða grunnskóla nemendur koma, einkunnir í öðrum greinum, mætingu o.fl. Einnig er það stefna skólans að reyna að hafa hlutfall kynja sem jafnast. Nefnd innan skólans mun fara yfir þessa þætti.

Þeir tveir umsækjendur sem hafa hæstu meðaleinkunn inn í ofantöldum greinum fá skólagjöld vetrarins felld niður.

 

Opið hús í Verzlunarskóla Íslands.

Þriðjudaginn 8. júní frá kl. 15:00 til 18:00 munu kennarar, nemendur, námsráðgjafar og annað starfsfólk skólans verða til viðtals ásamt yfirstjórn skólans. Þá verður jafnframt hægt að sækja um skólavist með rafrænum hætti hér, en allar umsóknir skal nú senda rafrænt. Hægt er að senda umsóknir til miðnættis föstudaginn 11. júní. Nemendum og forráðamönnum þeirra gefst einnig kostur á að skoða skólann og þá aðstöðu sem nemendum stendur til boða. Nánari upplýsingar fást á heimasíðu skólans, www.verslo.is og hjá námsráðgjöfum.

Fréttasafn