11. okt. 2010

Danskir verslunarskólanemendur í heimsókn

 

Undanfarin ár hafa Verzlunarskólinn og Århus Købmandsskole unnið að samstarfsverkefni í formi nemendaskipta. Hefur bekkur frá Århus komið að hausti ár hvert til Íslands og nemendur úr Versló hafa síðan endurgoldið heimsóknina að vori. Þetta skólaár taka 33 nemendur í fjórða bekk þátt í þessu verkefni á vegum Verzlunarskólans. Þeir eru gestgjafar eins Dana í viku og síðan gestir á heimili Danans aðra viku að vori komandi. Hefur þetta verkefni alltaf tekist vel og hafa nemendur verið skólanum til sóma bæði sem gestgjafar og sem gestir í erlendu landi.

 

Að þessu sinni voru dönsku krakkarnir hér á landi í síðustu viku ásamt tveimur kennurum sínum. Þeir heimsóttu m.a. listasöfn, fengu fyrirlestra um Íslendingasögurnar, kynntust aðeins máli, menningu og sögu landsins og ferðuðust til Þingvalla, Gullfoss, Geysis og á Reykjanesið með viðkomu í Bláa Lóninu.  Var heimsóknin mjög vel heppnuð og fóru Danirnir heim með bros á vör.

Fréttasafn