16. feb. 2011

Fjarnám á vorönn 2011

Nemendur í fjarnámi VÍ á vorönn 2011

Fjöldi

Á vorönn 2011 eru 683 nemendur skráðir í fjarnám við Verzlunarskóla Íslands og er þetta fámennasta vorönn sem verið hefur síðan fjarnám við Verzlunarskóla Íslands hófst með núverandi sniði haustið 2005. Ástæðan er niðurskurður. Af þessum 683 fjarnemendum eru:

  • 42 (6,2%) nemendur grunnskóla
  • 159 (23,3%) nemendur í dagskóla Verzlunarskólans
  • 213 (31,2%) nemendur annarra framhaldsskóla
  • 269 (39,4%) ekki skráðir í skóla.

Kyn

Af 683 fjarnemendum eru konur 412 (60,3%) og karlar 271 (39,7%).

Aldur

Meðalaldur fjarnemenda er 22,7 ár. Yngsti nemandinn er fæddur í október 1997 og verður hann því 14 ára á þessu ári. Það er piltur sem stundar fjarnám í ensku 403, auk þess sem hann er nemandi í grunnskóla. Auk hans er einn annar fjarnemandi fæddur árið 1997, Það er stúlka sem stundar nám í ensku 203 og þýsku 103. Þessir grunnskólanemendur eiga það sameiginlegt að hafa búið áður í ensku- og/eða þýskumælandi landi. Elsti nemandi fjarnámsins er fæddur 1952, en það er karlmaður sem leggur stund á alþjóðafræði, ensku og markaðsfræði. Hann lauk verslunarprófi frá skólanum á sínum tíma og stefnir á stúdentspróf af alþjóðasviði frá skólanum. Á milli þessara nemenda er 45 ára aldursmunur.

Þegar aldursdreifing fjarnemenda er skoðuð kemur í ljós að um helmingur nemenda er fæddur á árunum 1990, 1991 og 1992:

  • Fjölmennasti árgangurinn eru nemendur fæddir 1991 (113 nemendur, 16,5%), en það eru nemendur sem nú eru væntanlega á fjórða ári í framhaldsskóla.
  • Næst fjölmennasti árgangurinn eru nemendur fæddir 1992 (109 nemendur, 16,0%), en það eru nemendur sem nú eru væntanlega á þriðja ári í framahaldsskóla.
  • Þriðji fjölmennasti árgangurinn eru nemendur fæddir 1990 (65 nemendur, 9,5%), en að eru nemendur sem nú eru væntanlega á fimmta ári í framhaldsskóla.
  • Fjórði fjölmennasti árgangurinn eru nemendur fæddir 1993 (60 nemendur, 8,8%), en það það eru nemendur sem nú eru væntanlega á öðru ári í framhaldsskóla.
  • Fimmti fjölmennasti árgangurinn eru nemendur fæddir 1994 (52 nemendur, 7,6%), en það eru nemendur sem nú eru væntanlega á fyrsta árið í framhaldsskóla.

Sjá nánar á þessari mynd:

fjarnam

 Myndin sýnir aldursdreifingu fjarnemenda VÍ á vorönn 2011.

Búseta

Ef marka má póstnúmer sem nemendur skrá, búa flestir fjarnemendur í 200, næst flestir í 220, þá 108, 112, 110, 105, 107 og 300.

Um 73% fjarnemenda býr í póstnúmerum á bilinu frá 100-271, en um 27% nemenda annars staðar á landinu eða erlendis. Tæp 5% á Vesturlandi, tæp 2% á Vestfjörðum, rúm 7% á Norðurlandi, tæp 3% á Austfjörðum, rúm 8% á Suðurlandi og um 3% erlendis.

Einingar

Að meðaltali tekur hver nemandi 5,5 einingar.

Samantekt

Meðalfjarnemandinn okkar á vorönn 2011 er því tæplega 23 ára kona sem býr í Kópavogi og tekur hún tvo áfanga.

Fréttasafn