10. okt. 2011

Danskir verslunarskólanemendur í heimsókn

 Undanfarin ár hafa Verzlunarskólinn og Århus Købmandsskole unnið að samstarfsverkefni í formi nemendaskipta. Hefur bekkur frá Århus komið að hausti ár hvert til Íslands og nemendur úr Versló hafa síðan endurgoldið heimsóknina að vori. Þetta skólaár taka 33 nemendur í fjórða bekk þátt í þessu verkefni á vegum Verzlunarskólans. Þeir eru gestgjafar eins Dana í eina viku og síðan gestir á heimili Danans aðra viku að vori komandi. Hefur þetta verkefni alltaf tekist vel og hafa nemendur skólans verið skólanum til sóma bæði sem gestgjafar og sem gestir í erlendu landi.

Að þessu sinni voru dönsku krakkarnir hér á landi vikuna 2.-8. okt.  ásamt tveimur kennurum sínum. Þeir heimsóttu m.a.  listasöfn, fengu fyrirlestur um íslenska tónlist, heimsóttu CCP, fengu leiðsögn um miðborg Reykjavíkur, kynntust aðeins málinu, menningu og sögu landsins og ferðast til Þingvalla, Gullfoss, Geysis og á Reykjanesið með viðkomu í Bláa Lóninu. Danirnir voru alsælir með dvölina þegar þeir kvöddu landið klukkan fimm á laugardagsmorguninn, þreyttir eftir annasama viku.

Danirnir á leið í Bláa lónið

Fréttasafn