1. feb. 2012

Nemendamót Verzlunarskóla Íslands

Fyrsti fimmtudagur febrúarmánaðar er ævinlega stór dagur í lífi Verzlinga en þann dag fer árlegt Nemendamót VÍ fram. Nemendamótsdagurinn er órjúfanlegur hluti skólans og hefðin sem honum fylgir mikil. Þessi dagur er hápunktur félagslífsins og eðlilega miklar væntingar sem honum fylgja. Algengt er að bekkirnir byrji daginn snemma og hittist yfir morgunverði í heimahúsi áður en farið er á leiksýninguna, sem að þessu sinni er byggður á kvikmyndinni Bugsy Malone.

Mikil vinna og metnaður nemenda liggur á bakvið uppsetninguna og hvetjum við foreldra og forráðamenn til að kynna sér sýninguna og sýningartíma á heimasíðunni http://www.bugsymalone.nfvi.is/.

Þegar líður á kvöldið hittast bekkir ýmist á veitingastöðum eða heimahúsum og snæða saman. Þaðan er farið í bekkjarpartí og beinum við þeim tilmælum til foreldra að leyfa ekki eftirlitslaus partí fyrir skólaböll. Skólinn hvikar ekki frá þeirri stefnu sinni að nemendur skólans, og þá sérstaklega 3. bekkingar, mæti án áfengis og mun ölvun ógilda miðann.

Þar sem hótelið (Park Inn/Hótel Ísland) sem hýsir Broadway er nú orðið sjúkrahótel hefur dregið verulega úr skemmtanahaldi í húsinu. Fyrir vikið er enn erfiðara fyrir nemendafélög að skipuleggja stóra dansleiki eins og árshátíðir enda fáir skemmtistaðir eftir sem rúma 1200-1500 nemendur.

Sem betur fer eru þó enn gáttir opnar og að þessu sinni verður Nemó-ballið í íþróttahúsi KR í Frostaskjólinu.

Húsið verður opnað klukkan 22:30 og því lokað klukkan 00:30 (ath. tímasetning á miða er röng).

Ballinu lýkur síðan klukkan 02:30 en nemendur eiga að mæta á eftirfarandi tímum:

3. bekkur á milli 22:30-23:00
4. bekkur  á milli 23:00-23:30
5. bekkur á milli 23:30-24:00
6. bekkur  á milli 24:00-00:30

bugsy

Fréttasafn