15. mar. 2012

Nemendur í 6. bekk tóku þátt í vörumessu í Smáralind

Nemendur á viðskiptasviði í 6. bekk Verzlunarskólans tóku þátt í vörumessu í Smáralind 9. og 10. mars sl. á vegum Ungra frumkvöðla á Íslandi. Ungir frumkvöðlar á Íslandi eru frjáls félagasamtök sem bjóða upp á fjölbreytt og skemmtileg námskeið innan skólakerfisins, námskeið sem meðal annars gefa nemendum tækifæri á að fóta sig í atvinnurekstri og kynnast frumkvöðlastarfsemi.
 
Versló tekur þátt í Fyrirtækjasmiðjunni sem er eitt þeirra námskeiða sem boðið er upp á hjá Ungum frumkvöðlum. Fyrirtækjasmiðjan gengur út á það að nemendur stofna sín eigin fyrirtæki sem rekin eru í þrjá mánuði, frá byrjun janúar til loka mars mánaðar.
 
Innan Versló eru nú starfrækt 11 fyrirtæki og voru þau, ásamt fyrirtækjum úr 4 öðrum framhaldsskólum landsins, samankomin í Smáralind til að kynna og selja vörur sínar og þjónustu.
 
Skemmst er frá því að segja að vörumessan gekk vel og að allir hafi haft gagn og gaman af.
 
  
 

Fréttasafn