Sigur hjá Versló í Forritunarkeppni framhaldsskólanna 2012
Þann 10. mars sl. fór fram Forritunarkeppni framhaldsskólanna í húsakynnum Háskólans í Reykjavík í Nauthólsvík. Keppninni hefur vaxið ásmegin með hverju árinu sem líður og til marks um það var metþátttaka í keppninni í ár, en rúmlega 120 keppendur í 44 liðum spreyttu sig að þessu sinni. Styrktaraðili keppninnar var Nýherji, sem líkt og sl. 2 ár sá um verðlaun og uppihald keppenda. Versló var áberandi í keppninni í ár en fyrir hönd skólans kepptu fjögur lið.
Keppninni var skipt niður í þrjár deildir, í Leonard Hofstadter-deildinni leystu keppendur mörg smá verkefni og eitt stórt verkefni þar sem reyndi á tæknilega færni, með notkun grafísks notendaviðmóts, gagnagrunns og vefforritunar, í Sheldon Cooper-deildinni leystu keppendur mörg smá verkefni og nokkur heldur stærri verkefni sem reyndu á rökhugsun og útfærslu á lausnaraðferðum, og Howard Wolowitz-deildin var hugsuð fyrir byrjendur og þá sem hafa áhuga á að kynna sér forritun.
Þrír nemendur Verzlunarskólans gerðu sér lítið fyrir og sigruðu í Leonard Hofstadter-deildinni. Liðið, sem kallar sig nimdA maeT, skipuðu þeir Ragnar Þór Valgeirsson, Kristján Ingi Mikaelsson og Guðgeir Búi Þyríson, allir í 5-X. Frábær árangur hjá strákunum en þeir voru að taka þátt í fyrsta skipti í keppninni og verða að sjálfsögðu aftur með keppnisrétt á næsta ári. Í verðlaun fengu þeir m.a. niðurfellingu skólagjalda í HR í eina önn, ekki slæmur vinningur það.
Í Howard Wolowitz-deildinni lenti lið frá Versló í öðru sæti. Þeir kalla sig X-treme team Gúrka og liðið skipa 6. bekkingarnir Kári Tristan Helgason, Snorri Heimisson og Árni Sturluson.
Mynd frá vinstri: Guðgeir, Árni, Snorri, Kári, Kristján og Ragnar.
Nánar á forritun.is.