Verzlunarskólinn hlýtur Gulleplið 2012
Gulleplið er sérstök viðurkenning til þess framhaldsskóla sem hefur skarað fram úr í heilsueflingu á hverju skólaári og í ár tilkynnti dómnefnd á vegum Embættis landlæknis að Verzlunarskóli Íslands hefði borið sigur úr býtum.
Verðlaunaafhendingin fór fram í dag þegar mennta- og menningarmálaráðherra afhenti verðlaunagripinn og peningaverðlaun.
Nemendur fjölmenntu á marmarann til að fylgjast með Héðni Svarfdal Björnssyni, verkefnastjóra fræðslumála hjá embætti Landlæknis, afhenda Valgerði Reynisdóttur, fulltrúa mötuneytis, sérstakt viðurkenningaskjal fyrir sinn þátt í verkefninu. Að því loknu afhenti mennta- og menningarmálaráðherrann Katrín Jakobsdóttir Inga Ólafssyni Gulleplið sjálft við mikinn fögnuð viðstaddra. Eftir verðlaunaafhendingu og þakkarræður var boðið upp á einstaklega gómsæt epli sem féllu vel í mannskapinn.
Mikil ánægja er með verðlaunin innan veggja Verzlunarskólans. Skólinn er þó langt í frá hættur í heilsueflingunni. Þetta árið verður áherslan lögð á hreyfingu og er stefnan að sjálfsögðu sett á að fá önnur eins verðlaun að ári.
Smellið á myndirnar til að stækka þær.