25. okt. 2012

Ferð nemenda til Sankti Pétursborgar í valgreininni Rússland: Saga og menning

rus2Fimmtíu og níu nemendur í valgreininni Rússland: Saga og menning, fóru í fimm daga vettvangsferð til Sankti Pétursborgar á dögunum 17. til 22. október. Rússneska utanríkisráðuneytið og utanríkismálaskrifstofa Sankti Pétursborgar var hópnum innan handar og greiddu götu hans í ferðinni. Fararstjórar og skipuleggjendur ferðarinnar voru: Bessí Jóhannsdóttir, Hallur Örn Jónsson og Jón Ingvar Kjaran.

Flogið var til Helskinki þann 17. október og síðan var farið þaðan í rútu til Pétursborgar. Dagurinn eftir var tekinn snemma og tóku nemendur þátt í heilsudegi Tækni- og hönnunarháskóla Pétursborgar, samstarfs- og vinaskóla Versló. Farið var í ferð út fyrir borgina þar sem nemendur fóru í ýmsa leiki og snæddu málsverð á rússneska vísu. Höfðu nemendur gaman að og voru sumir hverjir nokkuð virkir í hinum ýmsu leikjaþrautum.

Næsta dag, þann 19. október var svo enn og aftur farið út fyrir borgina, alla leið til þorpsins Pushkin sem er í um 30 km utan við Sankti Pétursborg. Þar var sumaraðsetur Rómanóvanna og var ein af höllum þeirra heimsótt þar, Katrínarhöllin. Nemendur voru leiddir um hina glæsilegu byggingu og fengu góða leiðsögn um sögu hallarinnar. Um kvöldið fór helmingur hópsins á ballettinn Don Quixote sem var sýndur í hinu fræga óperuhúsi borgarinnar, Marinskí. Balletinn var frumfluttur í Moskvu árið 1869. Danshöfundur var Frakkinn Marius Petipa og tónlistina samdi Austurríkismaðurinn Ludwig Minkus, en hann vann lengi sem ballettónskáld við keisaralega balletinn í Moskvu.

Þann 20. október, var svo farið í Vetrarhöllina og Hermitage-safnið. Fengu nemendur þar ágætis kynningu á höllinni og sögu hennar. Ennfremur voru vel valin málverk af þeim 3 millj. verka sem safnið hefur að geyma skoðuð og kynnt nemendum. Því næst var Ísakskirkjan heimsótt og eftir það skiptist hópurinn. Hluti hópsins fór á rússneskan markað og gerðu margir nemendur þar góð kaup. Aðrir sóttu kappleik fótboltaliðs Pétursborgar, Zenith, en þeir öttu kappi við lið frá Kursk-héraði. Fóru þeir Zenith-menn með sigur af hólmi.

Pétursborg var svo kvödd með söknuði þann 21. október og farið í rútu aftur til Helsinki. Þangað var komið um kvöldmatarleytið og kom hópurinn sér fyrir á gistiheimili í miðborg borgarinnar. Eftir það tóku fararstjórar hópinn í stutta kvöldgöngu um borgina þar sem vel valdar byggingar voru skoðaðar. Daginn eftir var svo farið í flug heim til Íslands og komið þangað seinni part dags. Má segja að ferðin hafi heppnast mjög vel og voru nemendur og kennarar ánægðir með ferðina.

rus2 rus1

Fréttasafn