18. mar. 2013

Tvenn bronsverðlaun hjá Versló í Forritunarkeppni framhaldsskólanna 2013

Síðastliðinn laugardag 16. mars fór fram Forritunarkeppni framhaldsskólanna í húsakynnum Háskólans í Reykjavík í Nauthólsvík. Til marks um vaxandi áhuga á forritun þá var metþátttaka í fyrra og aftur í ár en 47 lið tóku þátt að þessu sinni. Styrktaraðili keppninnar var Nýherji, sem líkt og sl. 3 ár sá um verðlaun og uppihald keppenda. Þrjú lið kepptu fyrir hönd Versló í keppninni þetta árið.

Keppninni var skipt niður í þrjár deildir, í Kirk-deildinni leystu keppendur eitt stórt verkefni sem reyndi á tæknilega færni með notkun grafísks notendaviðmóts, í Spock-deildinni leystu keppendur mörg smá verkefni og nokkur heldur stærri verkefni sem reyndu á rökhugsun og útfærslu á lausnaraðferðum, og Scotty-deildin var hugsuð fyrir byrjendur og þá sem hafa áhuga á að kynna sér forritun.

Þrír nemendur Verzlunarskólans sigruðu keppnina í fyrra í deild sem þá kallaðist Leonard Hofstadter-deildin og var sambærileg við Kirk-deildina í ár. Í ár náðu strákarnir þriðja sæti sem er engu að síður frábær árangur. Liðið, sem í ár kallaði sig Codeplay, skipuðu þeir Ragnar Þór Valgeirsson, Kristján Ingi Mikaelsson og Guðgeir Búi Þyríson, allir í 6-X.

Hin tvö liðin frá Versló kepptu í Scotty-deildinni og náðu þar fínum árangri, þriðja og fimmta sæti. Í þriðja sæti voru þeir Bjarni Örn Kristinsson 6-X, Eiður Sveinn Gunnarsson 6-X og Daníel Freyr Árnason 5-R en lið þeirra kallaðist Java reborn. Liðið args náði svo fimmta sætinu en það lið skipuðu þau Valentin Oliver Loftsson 5-H, Haukur Örn Hauksson 5-T og Pála Ögn Stefánsdóttir 5-A.

Nánar um keppnina á forritun.is og hægt er að fletta myndum úr keppninni meðal annars hér og hér.

args

CodeplayJava_reborn

Fréttasafn