Verzló fór heim með öll verðlaunin
Nemendur í 6. bekk á viðskipta- og hagfræðibraut hafa nú á vorönn tekið þátt í verkefninu „Fyrirtækjasmiðjan“ á vegum Ungra frumkvöðla. Verkefnið felur í sér að stofna og reka fyrirtæki í 13 vikur. Alls voru 36 fyrirtæki þátttakendur í verkefninu í ár frá nokkrum framhaldsskólum en af þessum 36 voru 18 frá Verzló.
Uppskeruhátíð verkefnisins fór fram í síðustu viku. Þá kynntu þau 12 fyrirtæki sem komust í úrslit vöru sína og ársskýrslu. Verzló átti 6 fyrirtæki í úrslitum og fór svo að af þeim þremur verðlaunum sem veitt voru fóru þau öll til nemenda skólans.
Besta fyrirtækið í ár var Kratos en það er skipað 6 nemendum úr 6-I. Þeim Erlu Rut, Bjarka, Ásgerði Ölmu, Tómasi Óla, Bergi og Styrmi. Fyrirtækið Kratos réðst í það verkefni að þróa og hanna fyrstu íslensku sportrúlluna. Áhugasamir geta nálgast nánari upplýsingar á facebook síðu fyrirtækisins, Kratos rúllur.
Bjartasta vonin var Skýið en það fyrirtæki er skipað fimm nemendum úr 6-F. Stofnendur þess eru Aron Már, Jón Birgir, Kristinn, Maron og Sverrir. Þeir gáfu út barnabók um „Halla Hrekkjusvín“ sem fjallar um einelti og náði hún m.a. inn á metsölulista hjá Eymundsson.
Fyrirtækið Merkúr fékk verðlaun fyrir bestu ársskýrsluna. Fyrirtækið skipa þau Andrea Kristín, Benedikt Þorri, Birgitta Rún, Erna, Tryggvi Jarl og Unnur Rún í 6-D. Fyrirtæki þeirra framleiddi hárteygjur sem seldust í hundraðatali.
Smellið á myndirnar til að stæakka þær