8. nóv. 2013

Orð eru gefins

Dagurinn 8. nóvember er helgaður baráttunni gegn einelti og að þessu sinni er sjónum beint að framhaldsskólum. Í tilefni dagsins stendur hópurinn „Verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti“ fyrir hátíðardagskrá sem Verzlunarskólinn sér um að hýsa. Dagskráin stendur frá 13-16 og eru allir aðilar skólasamfélagsins hvattir til að mæta en aðgangur er ókeypis.

Starfsfólk og nemendur Verzlunarskólans munu fyrir hádegi leggja sitt að mörkum á baráttudeginum með því að gefa hvort öðru falleg og vel valin orð eða setningar. Máttur góðra orða er mikill, þau eru gefandi og nærandi og allajafna fær sá sem þau segir borgað með brosi, það kostar ekkert en gerir öðrum gott.

Eins er vakin athygli á að í tengslum við geðræktarhluta Heilsueflandi framhaldsskóla hafa ýmis jákvæð orð á borð við gleði, hæfni og vellíðan verið sett upp innan veggja skólans. Vonir standa til að orðin lifni við á degi gegn einelti og verði þannig hluti af jákvæðum skólabrag sem hafnar með öllu einelti.

Sýnum í verki afstöðu okkar gegn einelti og skrifum undir þjóðarsáttmálann.

Fréttasafn