8. nóv. 2013

Rætt um menningu og mikilvægi sundlauga

Halldór Armand Ásgeirsson rithöfundur heimsótti 6. bekk í gær og las úr nýútkominni bók sinni, Vince Vaughn í skýjunum. Hann ræddi einnig við nemendur um hin fjölbreytilegustu málefni eins og tónlist, bókmenntir og sundlaugar. Laugardalslaugin er einmitt notuð sem sögusvið í bók Halldórs en að hans mati gegna sundlaugar á Íslandi mikilvægu félagslegu hlutverki í samfélaginu. Var ekki annað að sjá en nemendum líkaði vel við málflutning Halldórs en hann velti fyrir sér ýmsum hliðum á íslenskri menningu enda eru tengsl ungs fólks í nútímanum við íslenskan menningararf meðal hugðarefna hans.

Bók Halldórs hefur fengið mjög góðar viðtökur meðal íslenskra gagnrýnenda og þykja sögurnar tvær, sem í henni eru, nokkuð frumlegar í efnisvali og stíl. Þar er t.d. fjallað um tímabundna frægð ungrar stúlku í kjölfar myndbands, sem hún hleður inn á internetið, og tilvistarvanda ungs lottókynnis. Segja má að einhvers konar „hálffrægð“ sé áleitið yrkisefni hjá Halldóri og spurningar um hvar mörkin liggja á milli frægðar og nafnleysis eru áleitnar í sögum hans.

Fréttasafn