28. apr. 2014

Fyrirtækið E-14 valið besta fyrirtækið í Fyrirtækjasmiðju Ungra Frumkvöðla

Fyrirtækið E-14 úr Versló var valið besta fyrirtækið í Fyrirtækjasmiðju Ungra Frumkvöðla. Sérstaka viðurkenningu fengu fyrirtækið Trisma úr Versló og fyrirtækið Reykjavík x Roses úr MS.

38 fyrirtæki úr 5 framhaldsskólum skiluðu umsókn í keppnina um besta fyrirtæki Fyrirtækjasmiðjunnar. Í úrslit komust 12 fyrirtæki og voru 8 þeirra úr Versló.

Dómarar í keppninni voru þau Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastóri Samtaka atvinnulífsins, Eva Magnúsdóttir forstöðumaður sölu hjá Mílu hf. og Eyjólfur Eyjólfsson verkefnastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Fyrirtækið E - 14 var stofnað í janúar af nemendum í 6F, þeim Sigurði Kristinssyni, Andra Þór, Davíð Georg, Davíð Erik, Karólínu Vilborgu og Örnu Margréti. E - 14 framleiðir og selur handunnin skotglös. Hvert glas er handrennt og umvafið hrauni. Engin tvö glös eru því eins. Smellið hér til að sjá afrakstur vinnu þeirra í vetur.

Fyrirtækið Trisma samanstendur af nemendum úr 6H, þeim Birki Smára, Jóni Þór, Karítas Lífi, Kristínu Huldu, Pétri Sigurðssyni og Sigurbirni Ara. Trisma framleiðir og selur slaufuhengi. Hengin eru handgerð úr krossviði og ryðfríu stáli. Smellið hér til að sjá afrakstur vinnu þeirra í vetur.

Fyrirtækið Reykjavík x Roses samanstendur af nemendum úr Menntaskólanum við Sund. Reykjavík x Roses framleiðir og selur sérhannaða boli. Smellið hér til að sjá afrakstur vinnu þeirra í vetur.

Fyrirtækjasmiðjan er áfangi á vegum Ungra Frumkvöðla sem kenndur er á viðskipta- og hagfræðibraut í 6. bekk. Í áfanganum stofna nemendur fyrirtæki í byrjun annar og starfrækja í þrjá mánuði. Á þessari önn voru starfandi 19 fyrirtæki innan Verzlunarskólans.

 Myndir frá verðlaunaafhendingu og uppskeruhátíð má sjá hér.Fréttasafn